Flugfiskar er yfirleitt ekkert til að hafa áhyggjur af á Spáni. Jafnvel þó þeir væru almennt hér til staðar er hættan lítil sem engin því þeir gera ekkert nema fljúga um loftin blá nokkur sekúndubrot.

Bærinn Deba er vel falinn í fjallasal Baskalands. Áin Deba Ibaia rennur þar í gegn. Mynd Barrutia
Bærinn Deba er vel falinn í fjallasal Baskalands. Áin Deba Ibaia rennur þar í gegn. Mynd Barrutia

En fljúgandi fiskar finnast þó á ólíklegustu stöðum þó ekki sé þar um að ræða flugfiska í eiginlegri merkingu. Meira eins og stökkfiska.

Slíkir finnast í allnokkrum vöðum á stöku stöðum í ánni Deba Ibaia sem rennur til sjávar í bænum Deba á norðurströnd Baskalands á Spáni. Svo mjög reyndar að léttur kajakróður vakti vöðu sem stökk til og frá í heila mínútu áður en yfir lauk og olli nettu hjartaáfalli kajakræðara.

Þegar mestu lætin voru yfirstaðin höfðu fjórir fiskar lent í svuntu kajakræðaranna sem hér áttu hlut að máli og því hæg heimatökin að kveikja upp í grillinu og fá ferskan fisk á disk.

Deba er einn fagurra smábæja sem finnast meðfram fjallóttri strönd Baskalands og er án alls efa fallegasta svæði landsins. Deba er vinsæll sumarleyfisstaður fyrir Baska sjálfa og þar öll helsta þjónusta og auðvitað hreint ágætir veitingastaðir. Lítið mál er að leigja kajak, kanó eða léttabáta til að sigla upp ánna eða sigla aðeins út á haf. Svo er heldur ekki vitlaust sé heitt í veðri að stinga sér til sunds í þeirri á eða öðrum þeim er hér renna til sjávar.

Leave a Reply