Hjá Heimsferðum hafa menn séð ljósið! Á næstunni verður bæði í boði að skottast til Lissabon og Porto í beinu flugi héðan í nokkrum sérferðum. Það er löngu kominn tími til enda báðar borgir ótrúlega heillandi fyrir unga sem aldna.

Það er handónýtt fólk sem ekki nýtur nokkurra daga í Lissabon þeirra Portúgala. Mynd Teetime
Það er handónýtt fólk sem ekki nýtur nokkurra daga í Lissabon þeirra Portúgala. Mynd Teetime

Um þriggja nátta ferðir er að ræða til beggja borga hjá Heimsferðum og flogið með móðurflugfélaginu Primera Air svo við skulum vona að ekkert bjáti á því það getur tekið ár og aldir að fá bætur ef þörf er á.

Tvær ferðir eru skipulagðar til Lissabon. Önnur í byrjun nóvember og hin í apríl á næsta ári. Aðeins einn túr til Porto og sá í byrjun desember.

Lesendur Fararheill vita sem er að öll ritstjórn Fararheill er hugfangin af landinu og þjóðinni ekki síður en Portúgalinn er þó oft erfiður og lokaður heim að sækja. Sem minnir reyndar á þegna annars lands öllu norðar á hnettinum 🙂

Prísar fyrir túrana eru misjafnir eftir völdum hótelum en heilt yfir þokkalegt verð miðað við allt og allt. Lægsta verð 1.- 4. desember til Porto kostar 160 þúsund á parið. Þar gist á ágætu fjögurra stjörnu hóteli en dvöl með morgunverði þennan tíma á hótelbókunarvef okkar fæst víða kringum 28 þúsund krónur. Sem aftur þýðir að flugið kostar parið 130 þúsund krónur eða 65 þúsund á haus. Ekkert hræðilegt en þó drjúgur skildingur fyrir marga.

Verst þykir okkur hve stutt er dvalið. Bæði Porto og Lissabon eiga meira skilið en tæpa fjóra daga og þú líka. Þó tími sé nægur til að sjá þetta helsta og versla lítið eitt er engin leið að ná að anda og slaka í slíkri ferð. Ef engin er slökun nýtur fólk slíkrar ferðar mun minna en ella.

Að því sögðu er algjör krafa af hálfu Fararheill að sem flestir geri strandhögg í þessum borgum áður en yfir lýkur.

Allt um Lissabon hér. Allt um Porto hér.