Það er á stundum ekki nóg að glíma við Everest fjall sjálft fyrir þá sem það reyna. Nú hefur frægur fjallgöngugarpur stigið fram og lýst miklum átökum við Sjérpa hátt uppi í fjallinu mikla. Mátti litlu muna að mannskaði yrði.

Frásögn Bretans Jonathan Griffith þess efnis að Sjérpar þeir sem honum fylgdu á klifri hans upp þetta hæsta fjall heims hafi upp úr þurru tekið upp á því að ráðast á sig og aðra göngumenn að tilefnislausa hafa vakið athygli enda Griffith þekktur göngugarpur í heimalandinu.

Sjérpar eru þeir heimamenn sem taka að sér, gegn gjaldi, að fylgja þeim eftir sem kjósa að klífa þetta mikla fjall en sérstök lög kveða á um að tiltekinn fjöldi þeirra þurfi að vera með í hverri ferð upp fjallið. Oftar en ekki hafa þeir reynst gulls ígildi og fræg er sagan af Edmund Hillary sem fyrstur kleif Everest og viðurkenndi mjög fúslega að hafa aldrei getað náð þeim áfanga án síns trausta Sjérpa með í för.

Að sögn Griffiths hófust deilur eftir að Sjérparnir ásökuðu Griffith og tvo aðra göngumenn um að hafa farið óvarlega upp og þyrlað upp ís sem fallið hefði á Sjérpana fyrir neðan. Skipti engum togum að deilurnar snérust fljótlega upp í átök þar sem heimamenn köstuðu steinum og öðru lauslegu í fjallgöngufólkið og víluðu ekki fyrir sér að sparka heldur.

Þarf ekki mikið ímyndunarafl til að vita að nógu hættulegt er að klífa Everest við bestu mögulega aðstæður og hvað þá þegar hundrað manna hópur fylgdarmanna vill ganga í skrokk á göngufólki.