Hið sígilda „enginn tími eins og núið” á líklega hvergi betur við en um Palermó á Sikiley þessi dægrin. Ekki aðeins sökum þess að við öll erum dauðlegar verur með takmarkaðan tíma heldur og vegna þess að stemmningin í ítölsku borginni hefur aldrei og verður seint skemmtilegri en nú.

Margir staðir í veröldinni verri en Palermó á Ítalíu.

Það er svo merkilegt með höfuðborg Sikileyjar að þangað mæta jafnt og þétt helstu matarsérfræðingar heims sem og helstu séní um blóð og glæpi og báðum hópum finnst mikið til koma. Fyrir utan hinn venjulega ferðamann sem fer ekkert fúll héðan heldur.

En sum augnablik eru betri en önnur og hér eru fjórar ástæður fyrir að heimsókn til Palermó NÚNA er extra góð hugmynd.

Í fyrsta lagi sökum þess að Palermó er fyrsta suður-ítalska borgin sem nær samkomulagi við íbúðamiðillinn Airbnb. Það þýðir að bandaríski risinn skilar raunverulega sköttum og gjöldum til borgarinnar ólíkt því sem gerist víðast annars staðar.

Í öðru lagi sökum þess að þetta er eina borgin í landinu sem trekkir að fleiri heimamenn, Ítala, en ferðamenn á ársgrundvelli. Af öllum ferðamönnum sem hingað komu 2019 reyndust 52% vera Ítalir annars staðar frá og 48% erlendir ferðamenn. Til samanburðar eru erlendir ferðamenn 73% þeirra sem heimsækja Róm á ársgrundvelli versus 26 prósent Ítala. Hér gildir það sem við ítrekum aftur og aftur: ef heimamenn sækja staðinn heim er þér alls óhætt.

Í þriðja lagi er það sú makalausa staðreynd að þrátt fyrir að vera fæðingarstaður hinnar viðbjóðslegu ítölsku Mafíu, sem er enn að og starfandi, þá reyndist Palermó öruggasta borg Ítalíu á síðasta ári samkvæmt tölum ítölsku Hagstofunnar. Hér eru skráðir fæstir glæpir í nokkurri ítalskri borg. Sem merkir að ferðafólk er öruggara en annars staðar í borgum landsins (nema auðvitað löggan sé að ljúga sem í Palermó getur því miður ekki verið útilokað.)

Í fjórða lagi, og sú staðreynd sem mest telur hvað okkur varðar, vegna þess að Palermó var Menningarborg Ítalíu árið 2018. Er það ekki aðeins of seint í rass gripið eða hvað? Alls ekki. Menningarstimpillinn þótti takast það vel til að enn er aðgangur að mörgum söfnum í borginni gjaldfrjáls og hvert einasta safn að sýna sína allra bestu muni.

Tæknilega ætti auðvitað að bæta við fimmtu ástæðunni fyrir heimsókn. Maturinn hér er undantekningarlítið súper dúper og það jafnvel á verstu túristastöðunum. Þú manst raunverulega eftir matnum sem þú lætur inn fyrir varir á eynni.

Út með þig hið snarasta 🙂