Hartnær þriðjungur Íslendinga hafa orðið fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að vera rændir á erlendri grundu ef mið er tekið af svörum við vefkönnun Fararheill. Þar segjast 28 prósent þátttakenda hafa orðið fyrir barðinu á þjófum meðan í fríi erlendis.

Stuldur og þjófnaður er vandamál alls staðar í heiminum í öllum borgum. Stór hluti Íslendinga hefur kynnst slíku á eigin skinni
Stuldur og þjófnaður er vandamál alls staðar í heiminum í öllum borgum. Stór hluti Íslendinga hefur kynnst slíku á eigin skinni

Það stemmir glettilega við óstaðfestar tölur sem ritstjórn Fararheill hefur fengið frá tveimur tryggingafélögum en hjá báðum var skotið á að hlutfallið væri milli 20 og 30 prósent samkvæmt þeirra bókum. Staðfestar tölur liggja þó ekki fyrir enda ekki haldið sérstaklega utan um slíkt hérlendis.

Óhætt að fullyrða að fátt er meira leiðigjarnara við ferðalög erlendis en hættan á slíku og gildir þá í raun einu hvort um er að ræða vopnað rán í Mexíkó eða innbrot í hótelíbúð á Benídorm á Spáni. Ekki aðeins getur fólk tapað skartgripum, peningum og kortum heldur hefur slíkur atburður mikil neikvæð sálræn áhrif á viðkomandi og fer þannig lífsreynsla létt með að eyðileggja fríið jafnvel þó engu merkilegu sé stolið.

Við þessu er bara tvennt að gera; tryggja sig eins vel fyrir slíku og völ er á hjá tryggingafélögunum og reyna eftir megni að geyma fjármuni og eða dýrmæta muni í þartilgerðum hirslum og öryggishólfum. Jafnvel dreifa fjármunum ef því er að skipta. Það hafa jú borist fregnir af stórtækum þjófum í Hollandi, Belgíu og Þýskalandi sem munar ekkert um að fjarlægja heilu öryggishólfin af hótelherbergjum.

Ekki er um vísindalega könnun að ræða á neinn hátt en hún gefur líkast til ágæta mynd af stöðu mála. 618 aðilar greiddu atkvæði og þakkar Fararheill kærlega fyrir þátttökuna.