Það er víðar en vestanhafs sem fasistinn og fávitinn Donald Trump nýtur stuðnings. Allmargir Íslendingar styðja karlinn og sjá ekkert athugavert við að spila golf á völlum milljarðamæringsins í Skotlandi.

Geysiflottir vellir við Aberdeen en allt endar hagnaðurinn í vösum Donalds Trump.
Geysiflottir vellir við Aberdeen en allt endar hagnaðurinn í vösum Donalds Trump.

Ferðaskrifstofan GB ferðir hefur lengi vel boðið upp á sérstaka golfpakka til Aberdeen í Skotlandi en þangað flýgur Flugfélag Íslands í beinu flugi. Á vef GB má sjá að ekki skortir áhugann að fylla vasa Trumps af seðlum. Velflestar ferðir sem í boði eru hafa selst upp.

Í þessum ferðum er gist á fimm stjörnu sveitaseturshóteli Trumps og spilað golf á þremur mismunandi völlum sem einnig eru í eigu fasistans. Ágætur pakki ef ekki væri fyrir eigandann sem hefur að undanförnu gert lítið úr konum, múslimum, latinóum, asíufólki, fötluðum, þroskaheftum og þeim rúmlega helmingi Bandaríkjamanna sem ekki eru að kaupa fasisma karlsins.

Um að gera að styðja við bakið á slíku viðrini með peningaútlátum á flottum völlum. Peningum sem karlinn fær í vasann og notar til að níða fólk sem ekki kaupir hans boðskap.

Og ekki er pakkinn alveg gefins. Verð per mann á ódýrasta tíma kostar 189 þúsund krónur fyrir tæplega þriggja daga túr þar sem spilaðir eru þrír hringir.

Sem fyrr er GB ferðir ekki í fararbroddi þegar kemur að góðum tilboðum á golfferðum. Einföld leit á netinu leiðir í ljós að einstaklingur getur sparað tugþúsundir á að bóka slíka ferð sjálf/-ur. Við mælum hins vegar með að eyða peningum í aðra velli en þá í eigu Trump.