Skip to main content

Það virðist vera hámark fávitaháttar að fremja glæp um borð í skemmtiferðaskipum enda fáar undankomuleiðir í boði á ballarhafi. Þó er talið víst að alvarlegir glæpir um borð í slíkum skipum séu mun algengari en fólk telur.

Hvern hefði grunað að alvarlegir glæpir væru bara nokkuð algengir í skemmtisiglingum.

Hvern hefði grunað að alvarlegir glæpir væru bara nokkuð algengir í skemmtisiglingum.

Það telur enginn annar en bandaríska alríkislögreglan, FBI, sem hefur undanfarin ár vakið athygli á að að skipafélögum er í sjálfsvald sett að tilkynna um alvarlega glæpi um borð í skipum sínum. Dæmi undanfarin ár sýna ævintýralegan mun á fjölda slíkra tilkynninga frá skipafélögunum og rauntölum frá fólki sem leggur fram kærur eftir að í land er komið.

Í því ljósi telur FBI að alvarlegir glæpir í skemmtisiglingum séu töluvert algengari en gefið er upp enda er það skipafélögum mjög í hag að tilkynna ekki um neitt nema bláköld morð eða alvarlegar nauðganir. Það er jú erfitt að selja fólki óöryggi.

Svo miklar áhyggjur hafa menn af þessari yfirhylmingu skipafélaga að sérstök þingnefnd hefur nú lagt til breytingar á lögum sem eftirleiðis munu neyða öll skipafélög sem sigla til og frá Bandaríkjunum að upplýsa um og afhenda öll gögn um öll alvarlegri brot um borð.

Full ástæða virðist vera til að hafa varann á sér í skemmtisiglingum sem annars staðar. Ef þú efast eitthvað um fjöldann er ráð að kíkja á vefsíðuna International Cruise Victims sem heldur utan um tilkynningar um alvarleg atvik um borð í skemmtiferðaskipum. Æði margir þar með sögur í sorglegri kantinum.