Skip to main content

Skúli Mogensen virðist aðeins hafa sparkað í rassa á skrifstofum Wow Air ef marka má tilkynningu á vef flugfélagsins vegna verkfalla á helsta flugvelli Wow Air í Berlín.

Ekkert að marka yfirlýsingar Wow Air virðist vera…

Eins og Fararheill hefur greint frá og sömuleiðis reynt að vekja athygli Samgöngustofu á málinu, er tryggilega tekið fram nánast alls staðar á vef Wow Air að FLUGMIÐAR SÉU EKKI ENDURGREIDDIR. ALDREI!

Sú yfirlýsing brýtur í bága við Evrópureglur sem kveða skýrt á um að flugmiða SKULI endurgreiða við tilteknar aðstæður og það samstundis í stöku alvarlegum tilfellum.

Hmmm. Full endurgreiðsla í boði hjá flugfélagi sem þvertekur fyrir allar endurgreiðslur?

Nú virðist starfsfólk Skúla hafa lesið sér til um málið því á sérstakri síðu flugfélagsins vegna verkfallsaðgerða starfsfólks á Schönefeld-flugvellinum í Berlín kemur fram að minnst tvær vélar Wow verði fyrir barðinu á verkfallinu og er farþegum í þeim vélum meðal annars boðið upp á FULLA ENDURGREIÐSLU!!!

Þetta er náttúrlega alveg galið. Hvers vegna í ósköpunum að tiltaka enga endurgreiðslu við neinar kringumstæður til þess eins að bjóðast til að endurgreiða þegar allt fer í hönk? Er hugmyndin að blekkja viðskiptavini svo þeir láti sér nú alls ekki detta í hug að heimta peninga til baka þegar ekki stenst steinn yfir steini eins og lofað er? Eða hvers vegna hefur Mogensen svona mikið fyrir að tiltaka engar endurgreiðslur til þess eins að lúffa þegar harðnar á dalnum?

Við skiljum ekki neitt hér en ítrekum það sem við höfum skrifað um oft og áður: ALLTAF AÐ LEITA RÉTTAR SÍNS OG TAKA EKKI NEI SEM LOKASVARI.