Héðan í frá er orðið dálítið flókið mál að komast undir sól og yl úti í löndum því að frátöldum ferðum til Kanaríeyja hafa innlendar ferðaskrifstofur gert hlé á ferðum sínum til annarra sólarstaða næstu mánuðina. En fyrir þá sem fengið hafa upp í kok af Kanarí eru leiðir til að prófa eitthvað nýtt og það jafnvel tiltölulega ódýrt.

Ekkert að setja út á þetta hjá Kýpverjum. Mynd Acapulco hotel
Ekkert að setja út á þetta hjá Kýpverjum. Mynd Acapulco hotel

Hver hefur til dæmis komið til Kýpur nýlega? Vissirðu að allra hlýjasti staður Evrópu í janúar og febrúar að frátöldum fyrrnefndum Kanaríeyjum er Kýpur.  Þar er meðalhitastig báða mánuðina 17 til 18 gráður yfir daginn. Sem sagt á pari við fínustu sumardaga heimavið.

Þýski ferðaskrifstofurisinn Travador er nú að selja átta daga ferðir til Kýpur þar sem dvalið er á fimm stjörnu hóteli með hálfu fæði í febrúarmánuði. Verð á þeim herlegheitum sem fyrr æði gott eða um 75 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman.

Flogið er frá Berlín meðal annars og þangað er jú komist héðan fyrir bærilegt verð líka. Hjá Wow Air finnst flug út og heim aftur að ferð lokinni frá Berlín kringum 40 þúsund á mann.

Tvinnum þetta saman og þá er hægt að sleikja sól á góðri strönd á nýjum og spennandi stað fyrir alls 115 þúsund krónur á mann. Samtals ferðin 230 þúsund á parið. Margt til verra en það.

Nánar hér.