Fæst erum við með miklar áhyggjur af nokkrum hlut þegar við loks komumst á hótelið okkar í Marbella, Alicante, Barselóna, Róm, Washington, Hamborg, Varsjá, London eða aðra þá staði sem heilla landann. En það eru mistök.

Alvarlegir eldsvoðar á hótelum og gististöðum eru mun algengari en þig grunar.

Því miður er það svo víða um heim og vestræn ríki þar meðtalin, að oft hreyfa stjórnvöld hvorki legg né lið fyrr en barnið er dottið ofan í brunninn og liggur þar blæðandi, örkumla og vart hugað líf.

Þetta á ekki síst við um brunavarnir en þeir eru fáir staðirnir þar sem fjársveltir eftirlitsmenn komast yfir allt sem þeir eiga að komast yfir til að tryggja að við séum eins örugg og nokkur kostur er. Ekki þarf að leita langt eftir dæmum. Þegar þetta er skrifað er neyðarútgangur í einni vinsælli verslun í Reykjavík blokkeraður af vörum sem gerir það illmögulegt fyrir fjölda fólks að komast út í hvelli ef eitthvað alvarlegt bjátar á.

Hótel og gististaðir heimsins margir hverjir síst betri og hætt er við að sumir reki upp stór augu ef þeir gúggla alvarlega bruna á hótelum eða gististöðum erlendis. Eldsvoðar eru algengari en gengislækkanir í Venesúela.

Svo þú vilt dæmi? Hvernig hljóma 188 eldsvoðar á hótelum og gististöðum í Bretlandi árið 2017? Það kann að hljóma aumingjalegt. En hvað þá um 3.900 eldsvoða á hótelum og gististöðum í Bandaríkjunum árlega? Og hér um að ræða þróuð vestræn ríki með reglulegt eldvarnareftirlit.

Jamm, ekkert smáræði og varla þarf að bæta við að tugir og jafnvel hundruðir ferðamanna deyja árlega í eldsvoðum á gististöðum heimsins og töluvert fleiri en það slasast alvarlega.

Flest getum við eflaust ímyndað okkur hryllinginn að vakna um miðja nótt við brunabjöllur á sjöttu hæð á flottu hóteli. Tvöfalda má þann hrylling ef eldurinn er fyrir neðan þína hæð og þú eða þið jafnvel föst uppi.

Einn úr ritstjórn er svo skelkaður við að lenda í slíkum aðstæðum að sá hefur ekki gist ofar en á þriðju hæð á nokkrum gististað um fimmtán ára skeið og í nokkrum tilfellum fjárfest í löngu reipi ef langt er í neyðarútganga. Reipið bindur hann um svalahandrið svo fræðilega sé hægt að bjarga sér niður ef eitthvað alvarlegt gerist.

Sami aðili á fimm góð og einföld ráð til að hámarka lífslíkur ef einn slæman veðurdag þú eða þið eruð stödd á röngum stað á röngum tíma.

√  Haltu ró þinni hvað sem tautar og raular    Hver einasti slökkviliðsmaður í veröldinni getur frætt þig um að fleiri láta lífið með óðagoti og örvæntingarfullum viðbrögðum í eldsvoða en hinir sem láta stressið ekki ná tökum á sér. Jafnvel þó staðan sé slæm.

√  Gerðu á hóteli það sama og þú gerir í farþegavél    Þó ferðavant fólk blikki vart auga þegar flugþjónar fara yfir öryggisatriði í farþegavél eru mjög margir sem leggja strax á minnið hvar næsti neyðarútgangur er. Það stóreykur líkur á að komast lifandi úr flugslysi og það sama gildir á gististöðum. Leggðu strax við komu á minnið hvar næsti neyðarútgangur er og gerðu þér far um að labba þann spöl áður en þú svo mikið sem tekur upp úr töskum. Það fimmfaldar stressið við eldsvoða að vita ekki hvar næsti neyðarútgangur er og jafnvel þó yfirlitsmynd um slíkt finnist inni á flestum herbergjum getur vel komið upp sú staða að þú vaknir við svo mikinn reyk að þú sjáir ekki framfyrir hendurnar. Þá er lítið gagn að stúdera eldvarnarkort sem þú varla sérð.

√  Gakktu vel frá fötum fyrir svefninn    Það hefur ekki verið mikið í tísku að ganga vel frá fötum þegar gengið er til svefns en það getur skipt milli feigs og ófeigs komi upp eldsvoði um miðja nótt. Ímyndaðu þér að vakna í reykjarkófi og eyða dýrmætum tíma að þreifa fyrir þér hvar buxurnar og skórnir séu. Það gæti verið sami tími og þú hefur til að koma þér út í hvelli áður en það er um seinan.

√  Ekki treysta á viðbrögð hótelstarfsfólks    Við þekkjum þetta flest: hótelstarfsfólk sem er varla vandanum vaxið við innritun og hvað þá ef hættu ber að höndum. Þekkt eru dæmi um að gestir sem verða varir við reykjarlykt hringi niður í lobbí og láti vita aðeins til að heyra að hafa engar áhyggjur. Sömuleiðis hefur það gerst að brunaviðvörunarbjöllur hafi farið í gang en hótelstarfsfólk gert lítið úr og beðið fólk að hafa ekki áhyggjur. Fimm mínútum síðar er allt í ljósum logum. Ástæða þessa er sú að enginn hótelstarfsmaður þorir fyrir sitt litla líf að vekja alla gesti og henda þeim út á götu ef ske kynni að viðvörunin væri bilun. Starfsfólk fer auðvitað á staðinn til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi en þá kann einfaldlega að vera orðið of seint að komast út. Ekki leggja líf þitt hugsanlega í hendur illa launaðs starfsfólks hótela.

√  Hringdu í neyðarlínuna    Ef svo illa vill til að þú eða þið sitjið föst meðan eldsvoði geysar láttu vita af þér eins fljótt og mögulegt er. Hringdu í neyðarlínu viðkomandi lands sé þess nokkur kostur. Þá eru slökkviliðsmenn í öllu falli líklegri til að koma þér til bjargar ef þeir vita fyrir víst hvar fólk er á stóru hóteli. Þeir bjarga því fólki áður en þeir hefja skipulagða leit í öðrum herbergjum. Aldrei gefið að hægt sé að komast í gestaskrár sísona þegar eldsvoði geysar. Þá getur starfsfólk neyðarlínunnar mögulega hjálpað þér að rata út eða auðvelda björgun á annan hátt.

Óskandi væri að enginn þyrfti að lenda í slíkum aðstæðum en raunveruleikinn er annar. Þín viðbrögð gætu skipt milli lífs og dauða ef eldur kviknar og okkar reynsla er að lífið er töluvert betra en dauðinn 🙂