Einu gildir til hvaða lands þú ferðast í veröldinni, það er víst að einhver þar hugsar sér gott til glóðarinnar gagnvart ferðamönnum. Vandfundinn sá áfangastaður þar sem einhvers konar svindl og prettir eru ekki í gangi þó í misjöfnum mæli sé.

Bátsferðin verður dýrari ef greiða þarf milliliðum líka. Mynd oldandsolo
Bátsferðin verður dýrari ef greiða þarf milliliðum líka. Mynd oldandsolo

Í Tælandi er þetta allstórt vandamál og ekki líður dagur án þess að ýmsir aðilar reyni að græða meira en ella á einföldu ferðafólki.

Svindlið misjafnlega gróft og misjafnlega dýrt en engu að síður er hættan lítil sem engin því lögregla er bæði fámenn og lætur sig oft litlu varða kvartanir ferðafólks.

Fararheill hefur flakkað um Tæland nokkuð og bæði ítrekað heyrt af ýmsum vafasömum tilraunum til að plokka meira fé af ferðamönnum og eins lent í því sjálf.

Hér eru fimm atriði sem kannski falla ekki öll undir svindl og pretti en ágætt er að hafa í huga og þá aðallega á stóru ferðamannastöðunum eins og Pattaya, Phuket og í Bangkok.

♥  PRÚTTAÐU UM ALLT  >>  Ekki allir gera sér ljóst að í Tælandi er sjálfsagt að prútta um verð á öllu alls staðar. Það á ekki aðeins við um götusölumenn eða á mörkuðum heldur líka í stórverslunum og hefðbundnum verslunum jafnvel þó verðmiði sé á vörunni. Almennt talað á mörkuðum þar sem verð eru auglýst er óhætt að keyra verð niður um 40 til 50 prósent og jafnvel meira í þau skipti sem verð er ekki auglýst. Uppgefið verð er þá 50 til 60 prósent hærra en söluaðilinn er reiðubúinn að fara. Þarna er meiriháttar sparnaður að fara forgörðum hafi fólk gaman af verslun.

♥  ÓDÝRU FARARSKJÓTARNIR  >> Hvergi ganga næpuhvítir ferðamenn um borgir Tælands lengi án þess að heyra ýmis gylliboð. Það á oft við um skoðunarferðir eða túra hingað og þangað og oft hljóma tilboðin of góð til að vera raunveruleg. Sem þau undantekningarlaust eru. Sé ökumaður á leigubíl eða tuk-tuk að bjóða túr á fáránlegu verði mega ferðamenn vera vissir um að flagð er undir. Í þessum tilvikum kann ökumaðurinn að sýna eitt og annað skemmtilegt en því fylgir líka stopp hjá fjölda fyrirtækja sem reyna að selja þér alls kyns glingur og drasl. Skartgripi, fatnað og aðrar dýrar vörur en hér skal hafa í huga að kaupi fólk eitthvað bætist þóknun til bílstjórans ofan á verðið. Það er því verið að keyra þig á milli verslana sem bílstjórinn nýtur góðs af en ferðamenn sjaldan enda verslanirnar sem um ræðir oftast í allra dýrasta kantinum.

♥  SKEMMDARTRIXIР >> Tælendingar eru svakalegir þegar kemur að því að leigja af þeim vörur eða þjónustu. Mikið er stundað að leigja út vespur, mótorhjól eða sæþotur til ferðafólks og yfirleitt á mjög sanngjörnu verði. En í 60% tilvika er reikningurinn á endanum mun hærri en um var samið. Það skýrist af ýmsum „skemmdum og rispum“ sem í ljós koma þegar hinu leigða er skilað. Engu skiptir að fólk hafi alls ekki valdið neinu tjóni því leiguaðilinn er oft með fjölda fólks sér við hlið sem allir verða reiðir þegar ferðamaðurinn neitar að greiða fyrir skemmdir á hinu leigða. Þær sögur ganga í Phuket og Pattaya að víða séu lögreglumenn í samkrulli og fái þóknun og því eru þeir nær undantekningarlaust á bandi leigusala ef einhver ferðamaðurinn skyldi nú ekki láta sig hafa að borga skemmdirnar. Greiðslan sem inna þarf af hendi á endanum skiptir tugum þúsunda í mörgum tilfellum.

♥  LEIGUBÍLAR  >>  Fyrir utan þá leigubílstjóra sem bjóða ódýru túrana sem fjallað er um að ofan eru þeir mjög margir frekir til fjárins þess utan. Í Bangkok sérstaklega getur verið flókið mál að fá þá til að nota opinbera gjaldmæla eins og þeir eiga að gera því helst vilja þeir fá viðskiptin þess utan. Aldrei fara neitt án þess að semja um verð og helst krefjast þess að mælirinn sé notaður því 99% tímans er mun ódýrara að fara eftir mæli en taka þeim boðum sem bílstjórarnir gefa. Algengt er að þeir smyrji allt að fimm hundruð til tvö þúsund baht ofan á túr enda vita þeir að Bangkok er risastór og fáir útlendingar þekkja borgina nægilega vel til að gera athugasemdir við verðið.

♥  EKKI ENDILEGA TREYSTA LÖGGÆSLUMÖNNUM >>  Töluverð spilling ríkir innan lögreglu víða í Tælandi og ekki óþekkt að lögregla taki með beinum hætti þátt í svikabralli gagnvart erlendu ferðafólki. Í langflestum tilvikum er því hægt að greiða sig frá sekt eða fangelsi ef upphæðin er nægilega há. Það er því eiginlega ekki hægt að treysta lögreglu neins staðar svo heitið geti.

♥  ANDA MEÐ NEFINU  >> Því fer fjarri að ofangreind dæmi séu þau einu. Prettir eru víðar og nánast alls staðar þar sem hópar ferðamanna koma saman er einhver að reyna. Alls konar fólk reynir að selja þér gull og græna sem hvorki reynist gull né grænt þegar til kemur. Einu gildir þó sé einhver það óheppinn að telja sig hafa orðið fyrir svikum og vilji útkljá málið með hnefunum. Það er sennilega versta hugmynd sem nokkur getur fengið í landinu. Það virðist ekki flókið að ná sér niðri á einhverjum svindlaranum. Tælendingar almennt eru mun minni en vestrænir ferðamenn en þeir standa saman eins og andskotinn. Ráðist útlendingur á heimamann líða ekki margar sekúndur þangað til hópur þeirra er kominn landa sínum til aðstoðar og fjöldinn fer létt með einn eða fleiri ferðamenn. Það er ávísun á spítalavist í öllum tilvikum.

2 Responses to “Sex hlutir að varast í Tælandi”

 1. Oskar Haraldsson, Svara

  Ég verð nú að segja að þetta er að mestu leyti rugl. Prúttið, reyndar mikið til í því en það gengur alls ekki allsstaðar. Í öllum mínum 20 og eitthvað ferðum til Tælands hef ég einu sinni lent i því að leigubílstjóri reyni að stoppa í verslun til að narra mig inn í. Þetta er semsagt sárasjaldgæft. Sama með skemmdartrixið, þetta gerist en er orðið mjög sjaldgæft.
  Leigubílar í bangkok, mikið rétt þeir eru erfiðir með mælana en þá veifar maður bara næsta og ca 1 of hverjum 3 setur mælinn í gang þegjandi og hljóðalaust. Heilt yfir eru svik og prettir fátíðir i Tælandi, öfugt við það sem er haldið fram í greininni.

  • Fararheillstaff, Svara

   Sæll Óskar

   Óþarfi að kalla rugl á eitthvað sem annað fólk upplifir. Við fjögur hér heimsótt Tæland alls átta sinnum og í ÖLLUM tilvikum fengum við ókeypis túr á demantasafn/demantasölu eða stopp í dýrri fataverslun þegar við pöntuðum leigara til að flakka um helstu staði í borginni. Það getur vel verið að þú hafir sloppið ótrúlega vel eða þekkir eh bílstjóra en það þarf enginn að velkjast í vafa um þetta. Aðeins nokkur þúsund kvartanir um þetta sama hjá ferðalöngum á Tripadvisor.

Leave a Reply