Enn einn dagurinn flatmagandi á spænskri sólarströnd ekki að gera sig? Það eru jú takmörk fyrir hvað við nennum að liggja marflöt og bora í nefið eða losa sundfötin úr skorunni ekki satt?

Þá óvitlaust að halda á vit ævintýra og á Spáni eins og víðast hvar við Miðjarðarhafið eru veislur og hátíðarhöld jafn mikill partur af prógrammet og verðbólga hér heima.

Allir sem kunna að lesa hafa heyrt um, og jafnvel prófað, þessar heimsfrægu spænsku hátíðir eins og Nautahlaupin í Navarra eða tómatastríðið í Buñol. Plús auðvitað þær ógrynni hátíða þar sem Guð, Kristur, dýrlingar og kaþólska trúin eru í forgrunni. Slíkar hátíðir algengari en mý á mykjuskán.

En er það þá upptalið? Neibbs, neibbs og neibbs er svarið við því og það nákvæmlega í þessari röð. Við bjóðum upp á fimm minna þekktar hátíðir sem sannarlega eru þess virði að gera sér ferð eftir.

CAVATAST  – Sant Sadurní d’Anoia/Katalónía  –  Sant Sadurní d’Anoia er lítið hérað í rúmlega 30 mínútna akstursfjarlægð beint til vesturs af Barcelóna. Héraðið stendur nokkuð hátt miðað við Katalóníu og þar kemur skýringin á hvers vegna þetta er Bordeaux þeirra Spánverja. Í þessu litla héraði er framleitt rúmlega 80 prósent alls freyðivíns sem Spánverjar framleiða og kalla cava á máli frumbyggja. Hér haldin vikulöng„uppskeruhátíð“ einu sinni á ári að hausti til og þar öllu til tjaldað. Brugghúsin rúlla fram sínu mesta og besta og bjóða á köflum frítt, bæir héraðsins skreyta sig fjöðrum og allt lífið í heila viku snýst eingöngu um vín sem freyðir. Og það vita allir sem bragðað hafa freyðivín að góða skapið er sjaldan langt undan eftir tvö til þrjú glös af þeim mjöðnum. Hátíðin vikulöng en fyrstu dagarnir mest spennandi. Svo spennandi að það eru sterkari líkur að fólk setjist að í Surtsey en að fá miða í lestina frá Barcelona til Sant Sadurní á þeim dögum.

Mynd Juan Carlos Toro

FERIA DE CABALLO  –  Jerez de la Frontera/Jerez  –  Mögulega hefur hestafólk heyrt á þessa hátíð minnst og þó það nú væri. Stærsta og vinsælasta hestahátíð Spánar og eins og vitiborið fólk veit eru spænskir hestar öllu stærri og tignarlegri en þeir íslensku þó þeir síðarnefndu séu auðvitað miklu ljúfari skepnur 🙂 Hér leiða saman hesta sína velflestir þeir sem hafa með hesta að gera í landinu og margvíslegar keppnir og viðburðir tengdar hestum fara fram meðan á hátíðinni stendur. En þar með ekki sagt að aðrir geti ekki notið líka. Jerez er auðvitað heimsþekkt hérað fyrir að framleiða besta sérrí heims og engin hátíð hér kallast hátíð án þess að flöskur af því eldvatni séu uppi á öllum borðum alls staðar. Svona ef það dugar ekki til nýtur heimafólk þess gjarnan að fylgjast með flamenco en að Sevilla frátalinni er Jerez hjarta og lunga flamenco á Spáni. Þér leiðist bara hér ef þú ert dauð/dauður og getur ekki tekið þátt. Hátíðin fer alltaf fram að vori til.

BATALLE DEL VINO  –  Haro/La Rioja  –  Allir vita um hina heimsfrægu tómatslagshátíð sem fram fer í bænum Buñol skammt frá Valensíu. Þar gengur allt út á að kasta tómötum í næsta mann og annan og auðvitað drekka með til að njóta til fulls. En af tvennu illu er töluvert ljúfara að fá yfir sig gusur af fyrsta flokks rauðvíni en þreytta tómata. Til þess þarftu að heimsækja smábæinn Haro í Rioja-héraðinu í lok júní. Í grennd við bæinn er að finna hæð eina mikla sem heitir hinu fróma nafni Bilibio. Einu sinni á ári halda bæjarbúar margir, og sívaxandi fjöldi aðkomumanna, upp hæðina atarna með eins mikið af rauðvíni og þeir geta framast borið í pokum, dunkum, brúsum, beljum eða jafnvel í vatnsbyssum og taka svo til við að sprauta eða hella víninu yfir næsta mann í mannþrönginni. Enginn óhultur hér og alls vitlaust að taka þátt í fansí fötum úr herrafataverslun Birgis. Nær lagi að kaupa einhverjar druslur í næstu búð áður en þú heldur til fjalls hér. Einn úr ritstjórn tók þátt 2014 og grætur síðan hvert sinn sem hátíðin er haldin og hann ekki með.

VIJANERA  –  Silió/ Cantabría  –  Illu heilli eru Íslendingar, og aðrir útlendingar, ekkert mjög duglegir almennt að heimsækja þau héruð Spánar þar sem sólin skín ekki linnulaust og sendnar strendur finnast við hvert fótmál. Það eru þó almennt þau héruð sem eru mest spennandi heimsóknar sökum þess að heimafólk lifir sínu lífi og heldur í sitt burtséð frá forvitnum útlendingum. Cantabría er eitt þeirra héraða þó reyndar hér skíni sólin engu minna en í Malaga og til séu þeir sem kjósa miklu fremur ómengaðar sandstrendur héraðsins en mökkmengaðar strendur við Miðjarðarhafið. Þeir sem láta sig hafa túr til Santander eða annarra staða í Cantabría verða ekkert fyrir vonbrigðum. Allra síst í smábænum Silió í um hálftíma fjarlægð frá Santander. Þar fer fram hátíð sem er sú fyrsta sem haldin er árlega á Spáni strax fyrsta sunnudag hvers árs. Vijanera kallast sú en þann dag klæða heimamenn sig í allsérstaka búninga og fagna sigri þeirra góðu á þeim illu. Búningarnir svo kostulegir stundum að til eru þeir sem segja að Tolkien sjálfur hafi haft búninga heimafólks bak við eyra þegar hann færði á blað fígúrur þær sem skipa hlutverk í Hobbitanum og Hringadrottinssögu. Sem sagt mjög líklega þess virði að eyða hér tíma í byrjun árs þó þessi hluti Spánar sé ekki mikið hlýrri en kuldaboli á farsæla Fróni.

Fiesta de Santa Marta de Ribarteme  –  Las Nieves/Galisía  –  Á sama tíma og ungmenni á Íslandi gera sig klár fyrir Verslunarmannahelgi í Vestmannaeyjum fer fram æði undarleg hátíð í smábænum Las Nieves í Galisíu-héraði á Spáni. Formlegt heiti hátíðarinnar er Fiesta de Santa Marta de Riberteme en þó það hljómi óspennandi eykst sennilega áhugi fólks ef við breytum heitinu í hátíð þeirra sem heimtir voru úr helju. Það er fræðilega hugmyndin að baki hátíðinni; að þakka guðunum, eða í þessu tilfelli hinum kaþólska guði, fyrir að bjarga þeim sálum er voru nærri dauða en lífi sökum slysa eða veikinda en náðu sér á strik að nýju. Í Las Nieves gengur þetta svo langt að þeir einstaklingar sem heimtir voru úr helju eru bornir um miðbæjartorgið í opnum líkkistum inn í kirkju bæjarins þar sem þeir eru „heimtir úr helju.“ Það er í kjölfarið á því sem hátíðin breytist úr dauðateygjunum í eitt standandi partí langt fram eftir nóttu með tilheyrandi áfengi, flugeldum og veislustandi. Afar sérstakt en afar skemmtilegt líka 🙂