Upp og niður virðist vera hvenær okkur gefst færi að heimsækja Mallorca á Spáni í beinu flugi héðan. Nú er slíkt aftur á dagskránni og þá ráð að rifja upp hvar er best að planta sínum rassi á eyjunni sólríku.

Cala Pi ströndin er í sérflokki á Mallorca
Cala Pi ströndin er í sérflokki á Mallorca

Eðli málsins samkvæmt er fjöldi góðra stranda á Mallorca en sumar þeirra eru einfaldlega betri eða skemmtilegri en aðrar og eru því langfremstar meðal jafningja.

Það eru þessar:

♥  Cala Pi de la Posada – Norðar á Mallorca verður ekki komist en að þessari fögru strönd sem oft er kennd við lúxushótelið Formentor sem staðsett er við ströndina. Hingað koma engir skarar af ferðafólki í skipulögðum ferðum heldur að mestu fólk sem hingað hefur komið áður og vill hvergi annars staðar vera. Eðal öldur fyrir brimbretti og brimbrettaskóli hér til staðar. Þá er útsýn yfir til Menorcu á góðum dögum. Eini gallinn sá að hér eru barirnir aðeins dýrari en gengur og gerist.

♥  Pollença – Önnur falleg strönd þar sem ekki þarf að rífast við hundruðir annarra um besta plássið á ströndinni. Hér er ólíkt flestum öðrum ströndum eyjarinnar tiltölulega rólegt og það jafnvel á háannatímum á sumrin. Fyrsta flokks strönd og ekki of langt frá neinu merkilegu.

♥  Cala Millor – Eflaust þekkja einhverjir þessa strönd enda var boðið upp á ferðir hingað um tíma frá klakanum. Vissulega ein af vinsælli ströndum Mallorca en prófaðu að koma hingað aðeins utan júní og júlí þegar fækka fer ferðafólki. Fyrsta flokks strönd og öll þjónusta í mínútufæri.

♥  Palma Nova – Þessi er eingöngu fyrir unga fólkið og reyndar helst þá sem þola djamm og djúserí fram á næsta dag. Palma Nova er nálægt Magalluf sem er enn helsti áfangastaður unga fólksins á Mallorca. Ströndin sjálf fellur því miður í skuggann á reifi og teknóbrjáluðum unglingum en hún er fyrsta flokks fram að þeim tíma dag hvern.

♥  Cala d´Or – Líklegast besta fjölskylduströndin á eynni því hún samanstendur af mörgum litlum víkum og því auðvelt að koma sér fyrir og jafnvel vera útaf fyrir sig ef sá gállinn er á.