Birna nokkur hafði samband við okkur og forvitnaðist um ferðatryggingar á faraldurstímum. Er ég tryggð/tryggður og þá hvernig ef kórónavírusinn hefur áhrif á ferðir mínar í framtíðinni?

Sorrí Stína, Alfreð, Hafsteinn og Júlía. Ferðatryggingar einskis virði á kórónatímum.

Skemmst frá að segja að næstum allar ferðatryggingar, þar með taldar þessar sem þú hefur ef þú greiðir ferðina með korti, eru núll og nix ef þú lendir í veseni vegna Covid-19.

Ferðatryggingar geta verið alveg príma heilt yfir en á tímum sem þessum er þjóðráð að nota sóttkvína til að stúdera smáa letrið. Næstum engin tryggingafyrirtæki á heimsvísu bjóða eitt né neitt ef faraldur skekur. Það flokkast undantekningarlítið sem „force majore” eða ófyrirsjáanlegar aðstæður og þar með eru tryggingafélög laus allra mála og þú færð feita löngutöng ef þú reynir.

Sem merkir að ef þig langar út á næstu mánuðum og misserum er óhætt að gefa sér að ekkert verður bætt gegnum ferðatryggingu ef eitthvað bjátar á. Gakktu út frá slíku allt þetta ár hið minnsta.