Hugmyndin per se alveg frábær. Setja saman vefmiðil þar sem fólki gefst kostur á að sjá og bera saman kostnað við pakkaferðir innlendra ferðaskrifstofa á einni og sömu síðunni. Útfærslan hins vegar hörmung.

Það sem hefði getað verið besti vefur landsins brotlendir illa strax við flugtak. Skjáskot

Hér erum við að tala um nýjan íslenskan vef, ferðaleit.is, sem leitar uppi og safnar saman pakkaferðum hjá ferðaskrifstofunum og birtir á einfaldan og aðgengilegan hátt.

Mottó vefsins atarna er „betri leið til að finna ferðir“ og víst er sára einfalt að sjá á augabragði hvort Úrval Útsýn er að okra meira á sama vikutúrnum til Malaga en Heimsferðir eða öfugt.

Ekki er alveg útilokað að um byrjendamistök sé að ræða en ástæða þess að ferðaleit.is er næsta ónýtur eins og hann er í dag er sú að aðeins er leitað að ferðum hjá þremur ferðaþjónustuaðilum hérlendis. Þeim þremur stærstu nóta bene: Heimsferðum Andra Más Ingólfssonar, Vita ferðum Icelandair og Úrval Útsýn Pálma Haraldssonar. Víst gefur þarna að líta ferðaskrifstofurnar Sumarferðir og Plúsferðir líka en fyrir ókunnuga þá tilheyra bæði fyrirtæki Úrval Útsýn með yfirleitt nákvæmlega sama verð á ferðum og móðurfyrirtækið.

Að bjóða upp á ferðaleit og bjóða aðeins upp á þrjú stærstu fyrirtækin þegar tæplega 30 innlendir aðilar selja landanum ferðir hingað og þangað er svipað og gefa United Silicon starfsleyfi í Helguvík. Allt lúkkar flott í byrjun…

Í öllu falli styttir þessi vefur fólki ekki leiðina að lægsta verði eða bestu kjörum á tilteknum ferðum eins og hugmyndin hefur líklega verið í upphafi. Mun betur má ef duga skal.