Þegar þetta er skrifað íhuga spænsk stjórnvöld að taka yfir alla stjórn Katalóníuhéraðs sem neyðaraðgerð gegn því að Katalónar haldi sjálfstæðisbaráttu sinni til streitu. Engum skyldi detta í hug að Katalónar taki því þegjandi og hljóðalaust.

Katalónar hafa að mestu hingað til krafist sjálfstæðis án blóðsúthellinga. Það gæti breyst á augabragði. Skjáskot

Hvort sem Madríd sendir embættismenn til að leysa katalónska embættismenn af hólmi verður raunin eður ei er ljóst að erfitt þrátefli er komið upp milli Barcelóna og Madríd. Mikill hiti er í fólki og það eðlilega þegar í borgum á borð við Barcelóna segjast tæplega 70 prósent vilja sjálfstæði frá Spáni. Hlutfallið litlu lægra í öðrum borgum Katalóníu.

Það er því eins og að kasta teningi að heimsækja Barcelóna næstu vikur og jafnvel mánuði. 50/50 hvort það verður frábært eða hörmung!  Borgin vissulega alltaf dásamleg en þar skiptir viðmót heimamanna máli og þegar sjálfstæði er annars vegar er ferðamaðurinn ekki í forgangi.

Viðbrögð við yfirtöku stjórnvalda í Madríd gætu líka haft í för með sér ólæti og skærur á götum úti og þá sérstaklega í miðborginni enda þar sem fólk safnast helst fyrir. Enginn Íslendingur vill vera á vappinu með góða skapið og fínu myndavélina á lofti þegar og ef tugþúsundir flýja skyndilega vopnaða lögreglumenn eða sérsveitir.

Nei, skemmtilegra að hinkra aðeins við, vera örugg og njóta þess að vera hér. Það er ólíkleg staða næstu vikurnar og jafnvel lengur.