Flugfélagið Wow Air á ennþá lausa flugmiða til Moskvu í Rússlandi daginn áður en íslenska landsliðið mætir því argentínska á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu og heim aftur daginn eftir leik. En seint verður sagt að Mogensen sé að auðvelda fólki málið: flugmiðinn sá hefur hækkað um 20 prósent á skömmum tíma.

Feit og mikil verðbólga á flugmiðum til Moskvu hjá Wow Air. Skjáskot

Þrátt fyrir að á forsíðu íslensks vefs Wow Air sé tilkynnt að hægt sé að kaupa flug fram og aftur til Moskvu í júní fyrir svo lítið sem 99.999 krónur á sardínufarrými með ekkert innifalið, reynist það ekki vera raunin þegar farið er inn á bókunarvél Wow Air. Þar hækkar sami miði umsvifalaust um 20 prósent og kostar að lágmarki 120.997 krónur fyrir manninn á sama sardínufarrými án alls.

Það merkir að vinir, par eða hjón punga út að lágmarki rúmlega 240 þúsund krónum fyrir flugið fram og aftur. Viljir báðir aðilar hafa töskudruslu með í för skjagar heildarkostnaðurinn langleiðina í 300 þúsund krónur!!!

Þá á að sjálfsögðu enn eftir að negla gistingu og sú ekki alveg gefins þessa daga. Vapp á nokkrum vinsælum hótelbókunarvélum leiðir í ljós að óhætt er að gera ráð fyrir 40 til 60 þúsund krónum að lágmarki fyrir tvær nætur ef dvalist er á sæmilegu pleisi sem er ekki lengst í rassi.

Auðvitað er trixið í öllum viðskiptum að hámarka tekjur eins og kostur er og það aldrei auðveldara en þegar eftirspurn er umfram framboð á fákeppnismarkaði.

En komm on. Öllu má nú ofgera. Eðlilegt verð á flugi til Moskvu og heim aftur er þetta 60 til 70 þúsund krónur á kjaft miðað við flugtíma. Wow Air finnst aldeilis í góðu lagi að tvöfalda þá upphæð og það án þess að farþegi megi hafa mikið meira en bréfsnifsi meðferðis.

Það kallast okur.