Skip to main content
Tíðindi

Feit verðbólga á gististöðum í Evrópu

  17/04/2012No Comments

Nú versnar heldur í því fyrir þá jarðarbúa sem fá laun erfiðisins greidd í heftri íslenskri krónu. Hún dugar skemur og skemur fyrir lífsgæðum á borð við ferðalög ef mið er tekið af miklum hækkunum á hótelverðum í Evrópu.

Meðalkostnaður eina nótt hyggist fólk leggjast til svefns í Feneyjum þennan mánuðinn er hartnær 40 þúsund íslenskar krónur

Allir vita að verð hækkar þegar nær líður sumri víðast hvar á ferðamannastöðum í Evrópu og er að hluta eðlilegt enda tengist slíkt vitaskuld framboði og eftirspurn. En sumar hækkanir eru svo fram úr hófi á skömmum tíma að gera má ráð fyrir að ástæðurnar séu aðrar og fleiri.

Hótelbókunarvefurinn Trivago birtir reglulega lista yfir hótelverð í helstu borgum Evrópu og þurfi einhver vitnanna við að panta ferðir sínar og hótel með eins góðum fyrirvara og mögulegt er ætti neðangreindur listi að skýra allt sem skýra þarf.

Á honum sjást meðalverð á einni nótt á hóteli í helstu borgum Evrópu í janúar annars vegar og í apríl hins vegar. Munurinn á rúmum þremur mánuðum er nokkuð sláandi og vantar þó töluvert upp á að verð á gistingu séu í hámarki sem verður í júní, júlí og ágúst.

Fjórir staðir sérstaklega skera sig úr. Amsterdam, Barcelóna, Róm og Feneyjar en þar hefur meðalverð á einni nótt hækkað um fleiri þúsundir króna. Sé dæmi tekið af Barcelóna er munurinn 10.095 krónur á nótt nú og í janúar síðastliðnum.

Staldri fólk við í eina viku eða svo greiðir það því rúmlega 70 þúsund krónum meira fyrir nákvæmlega sömu vöruna nú og það hefði gert fyrir þremur mánuðum síðan.

Er þetta enn ein ástæða til að hafa tímann fyrir sér þegar bókuð er gisting erlendis. Það gildir í þessu sem öðru að sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær og því fyrr sem fólk bókar gistingu því ódýrari er hún almennt talað.

* Verð reiknuð miðað við gengi krónu gagnvart bresku pundi 17. apríl 2012.

Sumarið enn framundan en verð á gistingu í helstu borgum Evrópu hækkar grimmt víðast hvar