Má bjóða þér að greiða rúmlega hundrað þúsund krónur fyrir flug fram og aftur til Alicante og alls ekkert innifalið? Það er dálítið okur ekki satt?

Yfir hundrað þúsund krónur til Alicante og heim aftur og EKKERT innifalið. Það er okur á heimsmælikvarða.

Það er engu að síður LÁGMARKSVERÐ fram og aftur með „lággjaldaflugfélaginu“ Wow Air til Alicante í næsta mánuði eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti.

Þar gefur að líta lægsta verði í boði aðra leiðina til Alicante í marsmánuði 2017 þegar þetta er skrifað. Verð til baka til Íslands þann mánuð á svipuðu róli.

Þetta er, hvorki meira né minna en 280 prósent dýrara fargjald en lægsta verð á flugi aðra leið til Alicante þetta árið.

Það undarlega við fargjaldastefnu Wow Air er að það virðist ekki vera neitt þak á hversu mikið er hægt að krefja viðskiptavini um fyrir flug hingað og þangað. Það er í hróplegu ósamræmi við fargjöld stærstu lággjaldaflugfélaga heims en leitun er að fargjaldi með Ryanair, Southwest, easyJet eða AirAsia sem kosta meira en 35 þúsund krónur aðra leið í versta falli. Hjá öllum þessum lággjaldaflugfélögum fylgir líka handfarangur með í fargjaldinu sem er ekki raunin hjá Skúla Mogensen og félögum hjá Wow Air.

Það er því afar stutt lína milli þess að bjóða frábær lág fargjöld og okra á viðskiptavinum.