Svo virðist sem enn einu sinni hafi ritstjórn hitt nagla á haus þegar við gagnrýndum afar hátt verð á safaríkri vetrarferð ferðaskrifstofunnar Farvel til Balí.

Unaðslega Balí heillar flesta lifandi menn en ekki á hvaða verði sem er.
Unaðslega Balí heillar flesta lifandi menn en ekki á hvaða verði sem er.

Við sögðum ykkur frá þessari ferð í vor en þá auglýsti ferðaskrifstofan umrædda ferð töluvert í fjölmiðlum. Og hver vill ekki dúlla sér á Balí í næstum tvo mánuði yfir vetrartímann?

Það vilja eflaust allir lifandi menn en þó ekki á hvaða verði sem er. Við töldum helst til gróft að heima 840 þúsund krónur á mann fyrir dúlleríið í vor jafnvel þó mikið væri innifalið.

Við innlit á vef Farvel nú kemur svo í ljós að ferðin atarna er enn ekki uppseld þrátt fyrir auglýsingaherferð frá því í vor. Reyndar kemur líka í ljós að verðið á þessari ferð hefur lækkað töluvert frá því sem var. Nú kostar pakkinn 765 þúsund krónur á mann eða 74 þúsund krónum minna en pakkinn kostaði í vor. Það munar aldeilis um minna: 150 þúsund krónur á parið í afslátt. Sem auðvitað sannar sem við héldum fram að viðkomandi ferð væri einfaldlega of dýr.

En hugsið ykkur að hafa keypt á upphaflegu verði og komast svo að því að þeir sem keyptu mun síðar fengu sama túr á miklu lægra verði…