Bara ef sjóðstjórar hjá lífeyrissjóðunum okkar hefðu lesið og fylgt eftir ábendingum Fararheill hér fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þá væri sjóðirnir ekki að grátblæða peningum, selja bréf á slikk og hugsanlega senda komandi ellilífeyriskynslóð á guð og gaddinn.

Stjórn og forstjóra Icelandair tekst ekki að koma flugfélaginu af botninum með tilheyrandi tapi fyrir lífeyrissjóði landsmanna. Mynd Masaki Watanabe

Sá hlær best sem síðast hlær. Sem er ástæða þess að hlátrasköll hafa heyrst reglulega af hæð í Kópavoginum síðustu misserin. Það reynist nefninlega svo að flugfélagið Icelandair, sem kostað hefur lífeyrissjóði landsmanna tugmilljarða króna á örskömmum tíma, tekst engan veginn að ná flugi á ný.

Sem er sirkabát það sem við spáðum í febrúar, mars, apríl og maí eins og dyggir lesendur muna 🙂

Nú er háannatími í flug- og ferðabransanum og þá dettur inn frétt þess efnis að þrátt fyrir allbærilegan gang hafi hlutabréf Icelandair lækkað enn á ný eftir örlítið upplit síðustu vikurnar. Eitt stykki bréf í flugfélaginu nú kostar heilar 13 krónur og 95 aura. Eða bara þrettán krónur því eina fólkið sem notar aura lengur er sama fólk er notar zetu sem bókstaf. Úrelt lið. Allavega eru bréfin í Icelandair þokkalega á pari við lakasta hlutabréfaverð í félaginu frá því landið tók að rísa eftir Hrunið 2008.

Merkilegt nokk bólar ekkert á óánægju hluthafa með skitinn hlut. Þaðan af síður heyrast köll eftir haus forstjórans. Það eina sem heyrist er að háttsettur plebbi hjá flugfélaginu sé nú í straffi fyrir að láta vini sína vita fyrirfram um hrun á hlutabréfum snemma þessa árs.

Verst af öllu að ekkert heyrist frá lífeyrissjóðunum sem eiga risahlut í flugfélaginu. Þeim finnst greinilega í lagi að missa feitan snúð úr bakaríinu án þess að blikka auga. Enda vita þeir sem er að þeir fá áfram sín feitu laun og missirinn kemur aðeins niður á næstu kynslóð sem fær að fara á eftirlaun 89 ára.