Svindl og svínarí ætlar engan endi að taka hjá Skúla Mogensen eiganda Wow Air. Ekki er lengur heimilt að neyta NEINS annars í vélum Wow Air en þess sem keypt er um borð í vélum flugfélagsins.

Skúli Mogensen fyrir miðju segir eitt opinberlega en allt annað uppi á tening í vélum Wow Air. Mynd Isavia

Herra Skúli Mogensen á marga æsta aðdáendur á klakanum. Svo marga að fylgjendum Fararheill.is fækkar um 20 til 30 í hvert skipti sem við greinum frá einhverju miður hjá Wow Air.

Það breytir engu. Við erum að vinna fyrir almenning í landinu en ekki fyrir milljarðamæringa sem ekki kunna sér hóf eða aðdáendur þeirra.

Rifjum upp orð Skúla Mogensen frá janúar á þessu ári við vefmiðilinn BusinessInsider.com (í þýðingu Vísis.is):

„Maður þarf að vera hreinskilinn við viðskiptavini sína því þá stýrir maður væntingum þeirra. Þeir vita fyrirfram að við bjóðum ekki upp á ókeypis mat, vatn eða þráðlaust net. Þess vegna segjum við þeim að koma með sinn eigin mat, eigið vatn og vera með bíómynd tilbúna í spjaldtölvunni eða fartölvunni.“

Einhvern veginn er himinn og haf milli þess sem eigandinn og forstjórinn Skúli Mogensen segir opinberlega og þess sem raunin er. Tveimur úr ritstjórn Fararheill hefur verið meinað síðasta mánuðinn að borða mat eða drekka bjór sem keyptur var í fríhöfninni í Keflavík fyrir brottför um borð í vélum Wow Air!!!

Það er reyndar sérstaklega tekið fram í ávarpi yfirflugfreyju- eða þjóns þessi dægrin að EKKI SÉ HEIMILT AÐ NEYTA NEINS UM BORÐ sem ekki er keypt af áhöfninni um borð. Auðvitað á okurverði eins og gengur þegar einokun á sér stað og fólk hefur ekkert val. Kaupfélagið.is.

Þar með dettur bull Mogensen við Business Insider um sjálft sig sem fals og vitleysa. Flugfélagið er ekkert að hvetja fólk til að koma með eigin mat, eigið vatn et cetera til að njóta á meðan flugi stendur. Það er stranglega BANNAÐ. Og líkurnar á að Mogensen hafi ekki vitað af þessu eða verið búinn að ákveða bannið þegar hann rabbaði við erlenda miðla er langsótt mjög…

Dapurt prógramm hjá milljarðamæringnum. Er virkilega þörf á að ljúga?