Fjölmargir Íslendingar hafa sótt Mallorca heim einu sinni eða oftar og sumir jafnvel árlega í áratugi. En hversu margir vita að fásóttasti hluti eyjunnar og jafnframt fegursti hluti hennar er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna?

Heljarmikill fjallgarður dekkar stóran hluta Mallorca. Þar alveg príma að eyða tíma. Mynd Maria Rosa Ferre

Svæðið sem um ræðir kallast Serra de Tramuntana, Tramuntana fjallgarðurinn, og er gróflega, og sorglega, sá hluti Mallorca sem ferðamenn þvælast sjaldnast um nema ef vera skyldi þeir sem bruna um eyjuna á bílaleigubíl.

Hér er um að ræða vestasta hluta eyjunnar sem er töluvert fjalllent svæði með djúpum gil- og dalskorningum með reglulegu millibili. Ekki er alveg laust við sólartúrisma hér. Bærinn Port de Sóller er nokkuð vinsæll staður fyrir þá sem ekki nenna næturlífi fram undir morgun. Sá tilheyrir Serra de Tramuntana.

Eins og sést á meðfylgjandi korti er fjallgarðurinn langur og mikill og nær rösklega frá bænum Santa Ponsa, sem margir Íslendingar þekkja, í suðri og allt til enda eyjunnar til norðurs.

Fegurð eins langt og augað eygir. Serra de Tramuntana

Einu gildir hvað þér hefur verið sagt af fararstjórum eða ferðahandbókum. Það er á þessu svæði sem þú finnur gamla góða veitingastaði sem bjóða raunverulega upp á mat eyjaskeggja en ekki tilbúið skyndifæði fyrir túrista. Hér finnurðu fólk sem tekur enn vel á móti þeim sem hingað koma og hugsa ekki aðeins um að tæma veski ferðafólks eins fljótt og auðið er. Hér finnurðu stórglæsilegt útsýni til allra átta og hér finnurðu heilu dalverpin og strendurnar þar sem hvergi sést önnur lifandi sála. Sem er dæmalaust merkileg staðreynd þegar höfð er í huga smæð eyjunnar og þær rúmlega sex milljónir ferðamanna sem hingað koma árlega.

Ekki svo að skilja að þú getir leikið Palla sem var einn í heiminum í Serra de Tramuntana. Svæðið nýtur vaxandi vinsælda náttúruunnenda og sérstaklega hin síðari ár hefur fjölgað mjög í hópi hjólareiðafólks sem ferðast aðeins um þennan hluta Mallorca. Einhverjar vinsælustu hjólreiðaferðir hjá ítölskum ferðaskrifstofum eru til að mynda hingað.

En er það aðeins fyrir náttúrufegurð sem Serra de Tramuntana komst á heimsminjaskrá? Ekki aldeilis. Sá sem hér flakkar um á tveimur jafnfljótum kemst fljótt að raun um að hér víða finnast einhver elstu og heillegustu mannvirki á eynni og þar á meðal eitt flóknasta áveitukerfi, patrimonio hidráuligo, sem vitað er um frá fornöld.

Við fullyrðum að enginn verður svikinn af því að skipta út einum eða tveimur dögum hangandi í ströndinni undir sterkri sólinni fyrir rólegheitarúnt um þessar slóðir. Ekki hvað síst snemma á vorin þegar fjöldinn allur af möndluhnetutrjám um allar trissur hér byrja að blómgast.