Kannski megum við þakka fyrir að enn séu starfandi Íslendingar í þjónustuverum íslenskra flugfélaga. Það eru jú indverskir aðilar sem aðstoða þig hjá Wow Air þessi dægrin. En það er samt full ástæða til að fara fram á þó ekki sé nema snefil af fagmennsku. Er það ekki?

Þjónusta er brandari einn hjá Icelandair.
Þjónusta er brandari einn hjá Icelandair.

Einn viðskiptavinur Icelandair á fésbók gerði nýlega athugasemd við bókun gegnum netið eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti. Svar við kvörtuninni barst fljótt og vel, aldrei þessu vant. En sá eða sú sem svaraði hefur líklega ekki lokið grunnskólanámi.

„Hæ Ingibjörg, nei það hefur ekkert breytst í þeim efnum. Við sýnum alltaf verðin með öllu inniföldnu. Geturu sent okkur einkaskilaboð með upplýsingum um áfangastað og dagsetningu svo við getum skoðað málið.“

„Hæ Ingibjörg“ er helst til vinaleg kveðja frá alls ókunnum aðila. Nema viðkomandi hafi hitt Ingibjörgu nýlega á djamminu í miðbæ Reykjavíkur. „Sæl vertu“ hefði verið töluvert eðlilegri viðbrögð eða bara „góðan daginn Ingibjörg.“

Ekki síður vafasamt er „Við sýnum alltaf verðin…“ Það veit menntaskólagengið fólk að orðið „verð“ fyrirfinnst ekki í fleirtölu. Svo við vitnum í Árnastofnun: „Nafnorðið verð ‘gjald, það sem eitthvað kostar’ er almennt eingöngu notað í eintölu en nokkuð ber þó á því að orðið sé haft í fleirtölu, ekki síst í auglýsingum.“

Öllu verra er samt: „breytst,“ „inniföldnu“ og  „Geturu.“

Er svo furða að íslenskunni hnigni þegar stórfyrirtæki ráða til sín fólk sem ekki er skrifandi og kann ekki undirstöðuatriði í kurteisi, þjónustu né íslenskri málfræði?

En kemur ekki á óvart. Óskólagengið fólk er ódýrt fólk og Icelandair snýst bara um að afla hluthöfum sínum feitan arð. Annað mætir afgangi.