Eftir ekki svo ýkja langan tíma kann að verða til nýrri og mun auðveldari leið til að toppa hæsta fjalls heims Everest. Upp ruslahauginn.

Eigi hefur mikið verið fjallað um allt það drasl og niðurgang sem allir þeir fjallgöngumenn sem reyna sig við fjallið mikla skilja eftir sig við tilraunir sínar en áætlað er að fimmtán tonn af rusli og úrgangi sé nú á víð og dreif um helstu göngusvæði í og við fjallið. Kannski engin furða enda aðbúnaður lítill og aumingjalegur og rennandi vatn af skornum skammti. Einhvers staðar verða menn jú að gera þarfir sínar og ekki er fýsilegt mikið að klöngrast niður snarbrattar hlíðar fjallsins með tómar plastflöskur, súrefniskúta eða umbúðir í fanginu.

Engu að síður geta einhverjir göngumanna borið höfuðið hátt því árlega taka göngumenn með sér 1,5 tonn af rusli af fjallinu og skila niður á jafnsléttu. Það bara dugar ekki til nú þegar ganga upp Everest er að verða eins hversdagslegur viðburður hjá fjölda fólks og kaupa nammi á laugardögum.

Í ár taka stjórnvöld í Nepal í fyrsta skipti sérstakt aukagjald af þeim er tindinn klífa skili þeir ekki öllu niður sem þeir fara með upp. Það gjald bætist ofan á gjald fyrir gönguna sjálfa.