Fjöldi ferðamanna á slóðir hæsta fjalls veraldar, Everest, er orðinn svo mikill að ferðamálayfirvöld í Nepal hafa nú sett af stað átakið „Björgum Everest.“ Átakið er tilkomið vegna þess að á fjallinu fagra er svo mikið sem fimmtán tonn af rusli sem fjallgöngufólk hefur skilið eftir sig á ferðum sínum.

Engin Sorpa fyrirfinnst í hinu fátæka landi Nepal og því er um verulegt vandamál að ræða því ekki aðeins er fjallið sjálft orðir ruslaralegt heldur og þau fjölmörgu þorp sem liggja við rætur Himalayafjallanna og fjallgöngumenn og aðrir fara um á leiðum sínum.

Hefur þess vegna átakinu verið hleypt af stokkunum í samvinnu við Fjallgöngufélag Everest, Everest Simmiteers Association og samtökin Eco Himal. Ætla menn á vegum þessara samtaka að reyna að safna saman átta tonnum af rusli af fjallinum á þessu og næsta ári og farga því á eins hreinlegan hátt og hægt er.