Það hefur aldrei verið sérstaklega ódýrt sport að klífa fjöll og firnindi. Sérstaklega ekki hæstu fjöll heims eins og K2 eða Everest.

Þessir toppar heilla alla alvarlega fjallgöngukappa heims.
Þessir toppar heilla alla alvarlega fjallgöngukappa heims.

Undanfarin sex ár eða svo hafa yfirvöld í Nepal heimtað um 2,8 milljónir króna fyrir hvern þann sem fæti stígur á Everest. Þetta ógnvænlega en fallega 8.848 metra háa fjall trekkir að þúsundir ferðamanna árlega og hefur gert lengi þrátt fyrir mikinn kostnað.

Ekki svo að skilja að allur sá fjöldi reyni við fjallið. Árið 2013 voru aðeins tæplega 700 sem upp komust alla leið en töluverður fjöldi gefst upp eða hættir við áður en toppnum er náð. Fyrir utan dauðsföll sem árlega eru nokkur. Þá þarf allt þetta fólk fjölda aðstoðarmanna og margir fara með til að veita ástvinum stuðning og hlýju. Ekki veitir af enda kalt á þessum slóðum.

En fyrir blankari göngumenn með stjörnur í augum gæti tækifærið verið komið. Stjórnvöld í Nepal hafa nefninlega lækkað svokallað klifurgjald verulega og nú kostar „aðeins“ 1,3 milljónir króna að staulast alla leiðina. Það er útsala í lagi.