Lestarfyrirtækið Eurostar hyggst á næstu fimm til sex árum fjölga áfangastöðum sínum í Evrópu til mikilla muna. Gangi það eftir kemst fólk með hraðlestum til og frá London til borga á borð við Amsterdam, Kölnar, Lyon, Genfar og Marseille og það oft fljótlegar en með flugi.

Tíu áfangastaðir verða í boði með hraðlest frá London árið 2015 ef allt gengur eftir

Eurostar er sem kunnugt er fyrirtækið sem rekur net háhraðalesta gegnum Ermasundsgöngin en hingað til hefur fyrirtækið aðeins boðið upp á beinar ferðir milli London, Parísar og Lille. Líkt og í fluginu er mörgum þyrnir í augum að skipta um lest til að komast á áfangastað og þess vegna vill Eurostar fjölga þeim kostum.

Ritstjórn Fararheill þekkir til fólks sem tekur reglulega lestir frá London framyfir flug áfram til áfangastaða í Evrópu og segir reynsluna almennt góða. Mismunur á verði flugmiða með lágfargjaldaflugfélögum og lestum Eurostar sé oft ekki mikill þegar allt er til talið, lengd ferðar getur jafnvel verið skemmri með lestinni og sá kostur sé mun afslappaðri kostur en með flugvél.

Frá London til Lille er ferðatíminn með Eurostar 01:20 mínútur en milli London og Parísar tekur það ferðalanginn 02:15 mínútur að fara á milli. Sé bið á flugvelli þarf ekki mikið til að slíkur kostur sé fljótlegri en flugið auk þess sem endastöð er inni í miðri borg en ekki á flugvelli í fjarska.