Það kann að koma einhverjum á óvart að erótísk söfn finnast í fjölmörgum borgum heims og flest trekkja þau nokkuð duglega. 

Glatt á hjalla hjá mörgum sem hin erótísku söfn Amsterdam sækja heim
Glatt á hjalla hjá mörgum sem hin erótísku söfn Amsterdam sækja heim

Nokkur ár eru liðin síðan eitt allra vinsælasta erótíska safn veraldar, Museum Erotica í Kaupmannahöfn, lokaði dyrum sínum hinsta sinni en það var um tíma meðal fimm mest sóttu safna þeirrar ágætu gömlu höfuðborgar okkar Íslendinga.

Aðdáendur þurfa þó ekki að örvænta því stór söfn með erótík og kynlíf sem þema finnast að minnsta kosti í átta borgum heimsins og þar á meðal í Barcelóna, Vínarborg, Tókíó, París, New York, Las Vegas, Berlín og Hamborg svo einhverjar séu nefndar. En sennilega er engin borg sem býður upp á tvö slík söfn eins og Amsterdam í Hollandi gerir.

Slík söfn eru ekki fyrir alla en heldur ekkert til að skammast sín fyrir að skoða enda ýmislegt fróðlegt sem þar ber fyrir augu. Um er að ræða málverk, skúlptúra, ljósmyndir, tæki og ýmis tól auk sögunnar og í stöku tilvikum eru raunverulegar manneskjur að leik fyrir allra augum.

Söfnin tvö í Amsterdam eru annars vegar Erotic Museum Amsterdam sem staðsett er í gamalli skemmu við Oudezijds Achterburgwal götu skammt frá Dam torginu. Hér eru þrjár hæðir af fróðleik tengdum kynlífi en ein hæðin er reyndar tekin undir sögu Rauða hverfisins sjálfs. Hér er opið daglega nema sunnu- og mánudaga milli 11 til 14. Greiða þarf 800 krónur fyrir herlegheitin.

Hins vegar Amsterdam Sex Museum í Damrak götu. Þar er opið alla daga vikunnar frá 9:30 til 23:30 og þar er ekkert verið að umvefja neitt erótískum blæ heldur allt hreint og beint hér. Sem er kostur en aftur er þetta safn ekki fyrir siðgæðisverði.