Þó Íslendingar séu blessunarlega lausir við kóngafólk, prinsa og prinsessur eru margir sem áhugasamir eru um slíkt tignarfólk og þá ekki síst bresku konungsfjölskylduna. Í London er vissulega hægt að berja augum nokkur konungleg slotin en hvergi er það þó betra en í Windsor.

Lítill hluti hins fallega Windsor-kastala. Mynd wink_in_pink
Lítill hluti hins fallega Windsor-kastala. Mynd wink_in_pink

Windsor er bær í um hálftíma fjarlægð frá miðborg London til vesturs og þar situr eitt magnaðasta konunglega mannvirkið í Bretlandi: Windsor kastalinn.

Kastalinn atarna er æði fallegur ásýndar þar sem hann stendur hátt og gnæfandi yfir sveitina. Sérstaklega er hér fallegt yfir hásumarið þegar allt er í blóma enda stór garðurinn vel hirtur af hirðfólki.

Windsor kastalinn hefur verið konunglegt setur í tæpa öld hvorki meira né minna og er það enn þann dag í dag þó heimsóknum hinna konungbornu hafi fækkað verulega síðustu árin. Drottningin og hennar fylgdarlið hefur látið nægja að dvelja hér í viku eða tvær að jafnaði síðustu árin.

Það þýðir að ólíkt mörgum öðrum konungshöllum Breta þá er hægt að skoða kastalann að hluta til nánast allt árið um kring og innandyra er ekki minna fyrir augað en utandyra. Þvert á móti eiginlega. Hver salur og herbergi skreytt í hólf og gólf og mörg falleg listaverkin prýða ganga og veggi um allt. Svo ekki sé minnst á að merk saga tengist allmörgum herbergjum hér. Ráð að taka leiðsögn um kastalann ef kostur er á til að heyra allt um hið fræga dúkkuherbergi og eða vitna eldhúsið og hvernig vinna fór fram þar á sínum tíma. Þá er og í boði að rölta upp í hinn fræga hringturn, Round Tower, með leiðsögn en þaðan er útsýni alveg hreint fimm stjörnu.

Einn mínus þó að myndatökur eru óheimilar innandyra. Á móti kemur að aðgangseyrir hér inn er aðeins um þrjú þúsund krónur fyrir fullorðinn sem ekki er stór upphæð miðað við að hægt er að spássera um í tvo til þrjá tíma og aldrei koma í sama herbergið.

Fararheill mælir eindregið með túr hingað að sumarlagi en reynið að vera eins snemma á ferð og mögulegt er; hér kjaftfullt af fólki yfir hádaginn.

Tvennt annað hér um slóðir gæti freistað ferðafólks. Annars vegar þekktasti montskóli Bretlands, Eton menntaskólinn, þaðan sem allir sem eitthvað þykjast vera í Bretlandi hafa numið um áratugi. Skólinn að mestu opinn fyrir skoðun.

Þriðji punkturinn er svo hið hið breska Lególand. Lególand Windsor skemmtigarðurinn er auðvitað kjörstopp fyrir smáfólkið og er að mörgu leyti tvífari hins danska Lególands í Billund.

Til Windsor er blessunarlega auðvelt að komast þó enginn sé bíll við hendina. Frá Paddington stöð í miðborg Lundúna fara lestir beint til Windsor Central á hálftíma til klukkustundar fresti. Túrinn tekur um 25 mínútur.