Vísir heitir fréttamiðill sem mjög reglulega birtir hinar bestu fréttir fyrir ferðaskrifstofur. Roksala og metsala virðist vera í hvert sinn sem blaðamaður hringir í ferðaskrifstofurnar og gildir einu hvenær það er. En aldrei nokkurn tímann er vitnað í neinn nema markaðsstjóra ferðaskrifstofanna sjálfra.

Sólarferðirnar rokseljast... eða hvað?
Sólarferðirnar rokseljast… eða hvað?

Enn ein slík „fréttin“ birtist á Vísi í dag og nú er „sala á sólarlandaferðum orðin eins og fyrir hrun.“ Engar tölur nefndar eða vitnað í óháðan aðila. Hringt í markaðsstjóra Úrval Útsýn og Sumarferða, sem báðar eru í eigu Pálma Haraldssonar, stórvinar eiganda Fréttablaðsins og Vísis. Sömuleiðis spjallað við yfirmann hjá Vita sem segir allt vitlaust að gera. Vita í eigu Icelandair sem auglýsir villt og galið hjá 365 Miðlum.

Nema hvað?

Hefur einhver einhvern tíma viðurkennt við dagblað að það sé ekkert að gera? Reksturinn sé í járnum? Fyrirtækið sé með allt niður um sig? Eða bara að sala gangi dræmt? Hvað sagði Geir Haarde um stöðuna þann 28. september 2008? Allt í gúddí. Hvað sagði forstjóri Enron daginn fyrir fallið? Bullandi uppsveifla.

Með öðrum orðum, enginn þarna úti er endilega mikið að segja sannleikann. Eins og góður blaðamaður ætti nú að vita og hafa í huga ef hann er að vinna fyrir fólkið.

Þetta er athyglisvert því það er sannað að mörgu fólki finnst sérstaklega spennandi að gera hluti sem mörgum öðrum finnst spennandi. Það eykur áhuga. Fregnir um troðfullar vélar í sólina á Spáni gætu því ýtt við mörgum öðrum sem líka vilja sól á kropp og vera og gera eins og hinir. Ergo: auglýsing.

En það er annað sem stenst ekki. Yfirlýsingin um að allt sé uppselt. Við kíktum á vef Vita, Úrval Útsýn og Heimsferða til Kanarí og Tenerife og sjáum ekki annað svona í fljótu bragði en töluvert sé eftir af sætum. Svona sirka helmingur kannski. Hér að neðan má sjá bókunarstöðuna hjá Heimsferðum sem dæmi. Um að gera að kíkja þangað ef allt er að klárast hjá hinum tveimur.

Nóg af lausum sætum í sólina samkvæmt þessu. Skjáskot
Nóg af lausum sætum í sólina samkvæmt þessu. Skjáskot

One Response to “Er til of mikils mælst að fá örlitla fagmennsku?”

  1. Hvers vegna að henda í útsölu ef ferðirnar mokast út? - Fararheill,

    […] vart að leggja haus í bleyti lengi til að ímynda sér að „moksalan“ fyrir þremur vikum síðan hafi aðeins verið sölutrix. Og fákunnandi blaðafólk lætur […]