Albert nokkur Einstein hafði sem reglu og mælti með við alla aðra að véfengja allt eða „question everything“ á hinu engilsaxneska. Það á við um allt undir sólinni og ekki hvað síst sólarvörur.

Aldrei treysta fyrirtækjum. Punktur!

Fararheill hefur áður og ítrekað bent lesendum á að hafa varann á sér áður en stokkið er út í sólina á fjarlægum ströndum. Líka þótt líkaminn hafi verið baðaður upp úr dýrri sólarvörn áður en út var komið.

Nú eru hafin fjöldamálaferli vestanhafs vegna þeirrar niðurstöðu bandarísku neytendasamtakanna Consumer Report sem sýndu fyrir ári síðan að rúmlega 40 prósent þeirra sólarvara sem rannsakaðar voru reyndust ALLS EKKI veita þá vörn sem lofað var á umbúðum og í auglýsingum.

Rúmlega 60 sólarverjur voru settar í óháð próf til að komast að því hvort uppgefinn sólvarnarstuðull, SPF, væri réttur. Miðað var við lágmarkið 30 SPF sem þykir það allra lægsta sem fölbleikt fólk úr Norðurhöfum ætti að nota undir sterkri sólinni til að byrja með.

Niðurstaðan vægast sagt hörmuleg. 43 prósent varanna sem lofuðu 30 SPF á pakkningum reyndust fjarri því að ná því lágmarki. Sú tegund sem kom verst út slefaði aðeins í rúmlega 12 SPF þó kyrfilega stæði á umbúðum að um 30 SPF væri að ræða. Sem þýðir auðvitað að umrædd sólarvörn dugar engan veginn gegn geislum sólar eins og af er látið og því um fals og svik að ræða.

Þótt eftirlit með vörum vestanhafs sé almennt verra en það er á Íslandi skyldi engum detta í hug annað en að sama gildi um „evrópskar“ vörur. Þessar evrópsku eru jú oft á tíðum aðeins bandarískar vörur í evrópskum umbúðum. Jafnvel þó þær séu raunverulega evrópskar er það ekkert merki um að þær séu betri eins og lesa má um hér.