Í júnímánuði 2015 gekk galóður maður inn á vinsælt hótel í Sousse í Túnis og myrti þar rúmlega 30 manns með köldu blóði. Síðan þá hefur ferðaþjónusta í landinu verið í öndunarvél.

Eftir 70 prósenta fækkun ferðamanna frá Evrópu til Túnis um mitt ár 2015 er þeim smátt og smátt að fjölga á ný.

Margir kalla það hryðjuverk þessi dægrin þegar einstaklingar taka sig til að myrða mann og annan með sveðjum, vörubílum og vélbyssum. Hér áður fyrr kallaðist slíkt ekki hryðjuverk heldur fjöldamorð. Sem er ekki betra en í það minnsta engin raunveruleg eða ímynduð tenging við hryðjuverkasamtök eins og nú gerist.

Enn þann dag í dag vara bæði Bretar og Bandaríkjamenn þegna sína við ferðum til Túnis og segja mikla hættu á frekari hryðjuverkum. Bandaríkjamenn reyndar vara ekki við öllum ferðum til Túnis lengur heldur aðeins til suðvesturhluta landsins. Engin bresk eða bandarísk flugfélög fljúga til landsins þegar þetta er skrifað.

Það gera hins vegar flugfélög í Frakkland, Þýskalandi, Ítalíu, Sviss og víðar enda hafa velflest þau lönd annaðhvort aflétt viðvörunum sínum til Túnis eða vöruðu aldrei sérstaklega við ferðum þangað. Stjórnvöld þessara landa annaðhvort betur með á nótum um ástandið í Túnis eða telja óþarfa að setja heila þjóð á válista útaf verkum nokkurra einstaklinga.

Auðvitað er aldrei hægt að tryggja 100 prósent öryggi neins staðar. Það er innantómt bull sem innantómir pólitískusar halda að fólki. Fjórtán einstaklingar létust í skemmtigörðum Flórída árið 2016 svona til samanburðar plús ellefu ferðamenn þess utan annars staðar í fylkinu, sumir vegna skotárása. Það fer langleiðina í fjölda þess sem myrtir voru í júnímánuði 2015 í Túnis.

Það fer auðvitað eftir dug og áræðni hvers og eins hvort Túnis telst þá orðið „öruggur“ staður til að vera á eða ekki. Kannski ekki sniðugt fyrir barnafjölskyldur en fyrir par eða hjón er varla hægt að vara lengur við dvöl í Túnis. Og þeir sem þora njóta sólar og sanda á einhverju lægsta verði sem finnst á jarðkringlunni. Ritstjórn veit af íslensku pari sem dvaldi í borginni Bizerte á norðurströnd Túnis um þriggja vikna skeið fyrir skömmu. Vandræðalaust með öllu. Parið dvaldi á fjögurra stjörnu hóteli með hálfu fæði fyrir heilar 178 þúsund krónur í þrjár vikur.

Slík gylliboð eru algeng í Túnis. Eins og sjá má skoði fólk gistingu á hótelvef okkar hér að neðan má gera aldeilis fantagóð kaup á gistingu næstu mánuðina í landinu. Það má meira að segja finna nótt á fimm stjörnu hótelum niður undir fimm þúsund krónur per nótt.

Hvað varðar að komast á staðinn nægir að skottast til þeirra landa sem ekki vara sérstaklega við Túnis. Frá París má fá flug til Túnis og til baka niður í 20 þúsund krónur. Frá Genf kemst fólk niður í 26 þúsund báðar leiðir og svo framvegis og svo framvegis.

Það má því auðveldlega verða sér úti um billegt sólarfrí sé ferðinni heitið til Túnis.