Útvarpsþátturinn Í býtið á Bylgjunni er óumdeilanlega langskemmtilegasti morgunþáttur landsins. Gulli og Heimir og hinn alltaf hálfþreytti Þráinn, sem á ekkert líf utan enska boltans, smella saman eins og glæný samloka um ferskt hangakjöt eða skinku. En á köflum leyfa þeir félagar gestum að vaða á súðum út í eitt.

Ef fólk er að hugsa um fjárhagslegan hagnað eitt, tvö og þrjú getur það gert verri hluti en að fjárfesta í fasteign í Flórídafylki.

Dæmi um það föstudagsmorguninn 25. október þegar fasteignasalinn Guðbergur Guðbergsson fékk hálfa klukkustund alls ókeypis til að auglýsa fasteignir á Flórída.

Samkvæmt Guðbergi er fátt gáfulegra en fjárfesta í fasteign á Orlando-svæðinu. Það sé ávísun á feita peninga á bókina og með útleigu gegnum hans eigið fyrirtæki kosti bara alls ekkert að eiga fasteign á þeim slóðum. Allt skilar sér aftur með leigu og gott betur. Fólk eignast príma pleis á sjö mínútum sléttum skuldlaust með leigu í nokkur ár.

Það má til sanns vegar færa ef litið er til fortíðarinnar. Íbúðaverð á stór-Orlandó svæðinu hefur vissulega verið að hækka um fimm prósent eða svo síðustu misserin sem er ekki döpur ávöxtun ef fólk er að hugsa um fjárfestingu per se. En það eru varla margir Íslendingar með næga peninga aukreitis til að vera rosa sáttir við 5% árlega hækkun á fasteign sem kostar tugi milljóna. Til samanburðar hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hér heima hækkað um tæplega 40% frá 2010.

En það vakna nokkrar spurningar sem hvorki Heimir, Gulli né Þráinn spurðu herra Guðbergsson.

A) Hvers vegna lofar Guðbergur bandarískt byggingarfyrirtæki í hár og húð sem eitt elsta og besta bandaríska byggingarfyrirtækið þegar það fær EINA STJÖRNU af fimm mögulegum á netinu?

B) Engin spurning að fasteignir eru oftar en ekki príma fjárfesting ef þú átt milljónir undir koddanum sem þú hefur enga þörf fyrir. En þú átt ekkert slíkan pening (nema þú sért raðsvindlari eða skítableðill) á efri árum. Og þá vaknar spurningin um hvers vegna þú vilt reyna að ávaxta þær milljónir þegar fólk er á ellilífeyrisaldri. Ætlarðu að flytja erlendis? Þá er fasteign á Flórída ekki málið. Ætlarðu að eyða vetrinum á Flórída? Þá er fasteign ekki málið heldur. Miklu ódýrara að leiga kytru en að kaupa þar eins og á Spáni, Ítalíu eða Portúgal.

C) Gulli og Heimir eru skemmtilegir gaurar en þeir eru ekki blaðamenn. Enginn spurði háttvirtan Guðberg um þann mínus að enginn skoppast til Flórída mikið án þess að punga út 70 þúsund krónum að lágmarki í flugið per haus. 150 þúsund að lágmarki fyrir par eða hjón og 300 þúsund að lágmarki fyrir hjón með tvö börn. Það er bara vel yfir 100% dýrara per haus en að fljúga til Spánar. Varla stór seðill eftir í bankanum ef þú þarft að punga út hátt í þrjú hundruð þúsund krónum fyrir fjögurra manna fjölskylduna til Flórída einu sinni á ári.

D) Efnahagur Bandaríkjanna verið með ágætum síðustu misserin með tilheyrandi hækkun fasteignaverðs. En blikur eru á lofti um að efnahagur Bandaríkjanna sé á feitri niðurleið eftir útblásin loforð Bandaríkjaforseta. Sem aftur merkir að hugsanlegur hagnaður af kaupum á fasteignum í Flórída gengur til baka með tilheyrandi kostnaði.

Varlega þarna úti. Sjaldan er allt gull sem glóir…