Þær eru æði margar eyjur heimsins sem eru stórkostlegar heimsóknar og hin íslenska þar klárlega meðtalin. Ein eyja sérstaklega stendur þó nokkuð upp úr meðal Íslendinga þegar rýnt er í bækur, blöð og ekki síst við gúggl: eyjan Capri í Napolíflóa.

Eyjan Capri í Napolíflóa hlýtur mikið lof hjá velflestum sem þangað koma. Hæsti punktur hennar er fjallið Solari sem gnæfir yfir bænum.
Eyjan Capri í Napolíflóa hlýtur mikið lof hjá velflestum sem þangað koma. Hæsti punktur hennar er fjallið Solari sem gnæfir yfir bænum.

Það vekur litla furðu ritstjórnar Fararheill að Capri þyki bæði falleg og þar undursamlegt að vera enda bláköld staðreynd.

Hitt vekur meiri furðu hversu margir hafa þangað komið gegnum tíðina þó ekki hafi þangað verið sérstaklega auðvelt að fara lengi vel og sé í raun ekki enn þrátt fyrir allt. Fyrir utan stöku sérferðir er alls ekki komist beint til Ítalíu frá Íslandi enn sem komið er og þegar það er hægt er ferðinni heitið í besta falli til Rómar en þaðan er drjúgur spölur enn að eyjunni fögru í Tyrrenahafi.

Fræg er sagan af því hversu mjög Capri og ákveðin heillandi stúlka á hóteli einu heillaði Davíð Stefánsson, skáld, upp úr skónum. Svo mjög að til varð kvæðið um Katarínu sem Haukur Morthens söng síðar og gerði frægt.

Þar sem Capri virðist hafa haft mikil áhrif á velflesta sem þangað koma fannst ritstjórn þjóðráð að draga saman á einn stað umsagnir nokkurra Íslendinga um dvöl sína á eyju þessari.

Niðurstaðan eftir lesturinn hlýtur eiginlega að vera að vart sé til meira heillandi staður og það jafnvel þó hún sé öllu dýrari en velflestir aðrir staðir á Ítalíu.

DAVÍÐ STEFÁNSSONÉg er nýlega kominn sunnan frá Capri. Það er guðdómleg eyja og þar vil ég búa á vetrum en heima á Íslandi á sumrum. Ef ég væri ríkur mundi ég gjöra það. Og þá byði ég þér með mér eitthvert haustið. Þar er allt sem þarf að fá til þess að koma gleði á. Gröndal mundi hafa sagt: Þar eru klettar. Þar eru hvít hús. Þar eru blóm. Þar eru vínlindir. Þar vaxa epli á trjánum. Þar eru skuggsælir lundar. Þar er kvenfólk og þar er gott að vera . . . Í Capri dansaði ég tarantella og söng St. Luciana og sá sólina hníga eldrauða í hinar heiðbláu Miðjarðarhafsöldur. Sjaldan hef ég séð slíka dýrð. Ég vildi að þú hefðir séð hana líka.

ÖSSUR SKARPHÉÐINSSONVið tókum okkur fari með hraðskreiðu farþegaskipi til Kaprí, og vorum ekki nema tæpa klukkustund á leiðinni. Eyjan reis einsog stórbrotið virki úr sjónum, umvafin gliti síðdegissólarinnar. Húsin voru smágerð og falleg, og það var notalega letilegur blær yfir lífi eyjarskeggja. Settið úr La Dolca Vita gerði hana fræga á árum áður. Kvikmyndastjarnan Sophia Loren er enn tíður gestur á Kaprí og Marcello Mastroianni kom þar oft meðan hann var á dögum.

Við sömdum við leigubílstjóra sem ók okkur um alla eyjuna, og við sungum fyrir hann um Katarínu og spurðum hvort verið gæti að afi hans hefði verið einn af Kaprísveinunum sem skáldið orti um. Hann varð glaður við að heyra að íslenskt skáld hefði fært hróður Kaprí alla leið norður undir heimskautið og sagði að eyjan væri gististaður margra listamanna sem kæmu þangað til að sækja sér sköpunarkraft.

MAGNFRÍÐUR SIGURÐARDÓTTIRKaprí er með fallegri stöðum sem gefur að líta á þessum hluta Ítalíu. Eyjan er lítil, aðeins tæplega 10 fkm að stærð og er nokkurn veginn ferhyrnd að lögun. Það fyrsta sem hrífur mann eru brattir hamraveggirnir sem rísa þverhníptir úr sjónum, mikill gróður sem þekur eyjuna og hvít húsin þar inn á milli.

GUÐLAUG BJÖRK BALDURSDÓTTIREyjan Capri er að ég held sá staður sem kemst næst því að líkjast pardís, eins og ég held að paradís líti út. Að labba meðfram ströndinni og horfa útá dimmblátt/grænt hafið þar sem möndlutrén standa í röðum í blóma er bara unaður og hvílík upplifun að maður fyllist lotningu.

ÓLAFUR GÍSLASONFyrir tæpum aldarfjórðungi var ég staddur á útsýnissvölum í húsi sænska læknisins Axels Munthe á eyjunni Capri og virti fyrir mér útsýni sem á sér fáar eða engar hliðstæður í veröldinni. Þetta var í marsmánuði, það var fátt um ferðamenn og yfir eynni hvíldi þögn og höfugur ilmur af nýútsprungnu blómahafi sem hvarvetna blasti við. Bergnuminn af upplifun þessa augnabliks var ég skyndilega vakinn til annars veruleika af ástföngnu dönsku pari sem komið hafði út á svalirnar. Það var stúlkan sem rauf þögnina og sagði:,,Oh, herregud, det er ligesom pa postkortet.”