Icelandair tilkynnti í síðustu viku að samkomulag hefði náðst við bandaríska lágfargjaldaflugfélagið JetBlue um samvinnu sem þýðir að hægt er að kaupa miða hjá Icelandair til muna fleiri áfangastaða í Bandaríkjunum en áður. Þó með þeim formerkjum að millilent sé á þeim áfangastöðum sem Icelandair flýgur til.

Ritstjórn Fararheill framkvæmdi af þessu tilefni leit að ferðum frá Keflavík til Chicago í Bandaríkjunum og niðurstaðan er óneitanlega Icelandair og JetBlue í vil borið saman við ódýrustu fargjöld Iceland Express til sama staðar.

Ódýrasta fargjaldið seinnihluta júlímánaðar hjá Iceland Express reyndist kosta 159.536 krónur 22.- 29. júlí. Að sama skapi reyndist ódýrasti farmiðinn með Icelandair/JetBlue fást 26.- 3. ágúst á 123.460 krónur. Munar þar 36.076 krónum á mann.

Einnig kom í ljós að töluvert ódýrara er að panta fargjaldið alla leið með Icelandair en að panta far til New York með þeim og annað far þaðan með JetBlue til Chicago en það fargjald sömu daga fékkst ódýrast á 137.757 krónur. Það borgar sig þannig að fara gegnum vef Icelandair.

En þá er ekki öll sagan sögð því Iceland Express flýgur beint til Chicago meðan flug með Icelandair/JetBlue krefst millilendingar í Bandaríkjunum með tilheyrandi töfum og leiðindum á flugvellinum.

Á hinn bóginn er rýmra um almenning í vélum Icelandair og JetBlue en hjá Iceland Express og afþeyingarkerfi Icelandair töluvert betra. Allt slíkt telur sannarlega á lengri flugleiðum.