Það má vera undarlegt lið sem eyðir fjármunum í golfferðir hjá GB ferðum. Svona lið sem á skitnar 50 milljónir á einhverri bók í einhverjum sjóði sem það man ekkert eftir. Ferðaskrifstofan okrar svo duglega að Bernie Madoff hyggst sækja þar um starf.

Verð á ferð GB ferða til Írlands næsta vor er mun hærra en eðlilegt getur talist.

Við höfum áður og ítrekað gert fulla grein fyrir okurpökkum GB ferða en góð vísu er jú aldrei of oft kveðin og því kryfjum við enn eitt tilboð þeirra. Að þessu sinni nýjan áfangastað: hinn stórkostlega Druids Glen á Írlandi.

GB ferðir auglýsa nú tvo túra til Írlands í maí 2018 þar sem gist er og spilað tvívegis á hinum ævintýralega magnaða velli Druids Glen og tvívegis á systurvellinum Druids Heath. Að öðru leyti fjórar nætur á fínu hóteli Druids Glen, flugið plús taska og golfsett og svo framvegis eins og lesa má um hér. Pakkinn atarna kostar manninn, miðað við tvo saman, 139.000 krónur, eða 278 þúsund alls fyrir par, félaga eða vinkonur sem deila herbergi.

Tæplega 300 þúsund krónur fyrir fjögurra daga ferð með fjórum golfhringjum virkar strax HELVÍTI DÝRT fyrir meðajón og meðalgunnu með áhuga á golfi. Jafnvel þó við hér getum vottað að Druids Glen er án alls vafa einn allra skemmtilegasti golfvöllur heims og pottþétt einn af tíu til tuttugu bestu golfvöllum í víðri veröld.

Druids Glen á Írlandi er án vafa einn allra magnaðasti golfvöllur heims. En það er engin afsökun fyrir okri. Skjáskot

Inn í pakka GB ferða vantar auðvitað bílaleigubíl sem þörf er á því enginn með 50 millur á gleymdri bók er að fara að taka strætó frá flugvellinum inn í Dublin og bíða þar á BSÍ þeirra Dublinarbúa eftir rútu sem rúntar með þig í tæpa klukkustund að Druids Glen. Nota bene er það tóm lýgi hjá GB ferðum að 30 mínútur taki að keyra bíl frá flugvellinum og að hótelinu. Það eru 45 mínútur að lágmarki og í lágmarksumferð. Vel rúm klukkustund ef annatími er á vegum.

Þá að því hvers vegna þetta tilboð GB ferða er hörmung út í eitt…

Byrjum á að kíkja á kostnað við flug eitt og sér 10. – 14. maí 2018 með Icelandair. Þar finnst fram og aftur túr niður í 38.927 krónur á mann. Samtals 77.854 fyrir tvo saman.

Kíkjum svo á gistingu á Druids Glen Resort umrædda fjóra daga á bókunarvef Fararheill og við finnum gistingu í tveggja manna herbergi niður í 92.809 krónur alls.

Þá erum við komin í 170.663 krónur í heildina fyrir flug plús gistingu. Ef við bókum tvo hringi á Druids Glen plús tvo hringi á Druids Heath beint af kúnni gegnum netið er kostnaður við fjóra hringi alls um 34 þúsund krónur.

Við erum þannig komin með sama pakka og GB ferðir heimtar 278 þúsund fyrir næsta vor niður í 205 þúsund krónur eða svo. Við höfum þegar sparað okkur 72 þúsund kall án þess að eyða nema tíu mínútum á netinu.

En þá er ekki öll sagan sögð. Ekki aðeins eru fleiri flugmöguleikar í stöðunni en gegnum Icelandair heldur og má finna á netinu sértilboð á gistingu og golfi á Druids Glen á umræddum tíma allt niður í 55 þúsund krónur fyrir fjórar nætur og fjóra hringi á sömu völlum.

Sem merkir að ef þú nennir og kannt að leita fæst sama ferð og GB ferðir selja á 278 þúsund krónur allt niður í þetta 110 – 130 þúsund krónur alls.

Það er sparnaður upp á 150 þúsund krónur að lágmarki!!!

PS: ef þú kannt ekki að leita en vilt komast í feitt, hafðu þá samband og við tengjum þig 😉