Skip to main content

Enn einn ganginn er að rætast það sem Fararheill spáði fyrir um síðastliðið haust: Eftirspurn eftir ferðum til Kanaríeyja hefur snaraukist á skömmum tíma og ljóst að gisting og afþreying þar í sumar mun hækka verulega í verði.

Fastsetja má að dvölin á Tenerife næsta sumarið verði dýrari en verið hefur. Mynd dartisan

Fastsetja má að dvölin á Tenerife næsta sumarið verði dýrari en verið hefur. Mynd dartisan

Í september á síðasta ári birtum við þessa grein okkar og endurbirtum um miðjan nóvember til að minna fólk á að vera snemma á ferðinni að bóka flug og gistingu til Kanaríeyja. Þar drógum við þá ályktun að sökum hryðjuverka í Tyrklandi, Egyptalandi, Túnis og víðar þar sem ferðamenn frá Evrópu hafa gjarnan haldið sig í töluverðum mæli undanfarin ár og áratugi, myndu mun fleiri kjósa Kanaríeyjar sumarið 2016.

Nú hefur þetta sannast. Tvær af stærstu ferðaskrifstofum Bretlandseyja merkja mikla aukningu í ferðum til Kanaríeyja næsta sumar. First Choice talar um 8 prósent aukningu í bókunum þangað og ferðaskrifstofur TUI bæði í Bretlandi og Þýskalandi segja 10% fleiri kjósa Kanaríeyjar nú en undanfarin ár.

Tíu prósenta aukning hjá svo stórum aðilum þýðir að tugþúsundir fleiri dvelja undir Kanaríeyjasól þetta sumarið en verið hefur sem aftur þýðir að hótel, flug og afþreying mun hækka í verði enda mun meiri eftirspurn en verið hefur.

Óhætt að ítreka enn og aftur að negla flugið og eða gistinguna strax sé ætlunin að sóla sig á Tenerife eða Kanarí í sumar.