Skip to main content
Tíðindi

Enginn fituskattur á farþega hérlendis

  15/05/2012No Comments

Íslendingar í yfirvigt þurfa ekki að óttast að verða gert að greiða hærri gjöld en aðrir fyrir að skreppa til eða frá með flugi. Ekkert slíkt er til skoðunar hjá innlendum flugfélögum.

Samkvæmt erlendum könnunum er meirihluti fólks á því að feitlagnir eigi að greiða aukalega fyrir flugsætið. Meirihluti í vefkönnun Fararheill.is er á sömu skoðun

Þetta hefur Fararheill.is fengið staðfest hjá bæði Wow Air og Iceland Express en ekkert svar hefur borist frá Icelandair. Hefur ritstjórn þó heimildir fyrir að slíkt komi heldur ekki til greina þar á bæ.

Spurningin um hvort flugferðalangar í yfirvigt eigi að greiða hærra gjald fyrir miðann en aðrir er töluvert í umræðunni meðal flugfélaga erlendis. Rökin að hluta þau sömu og þegar farþegum er gert að greiða aukagjöld fyrir farangur sem er umfram heimildir. Aukin þyngd kostar eldsneyti og flugvélabensín kostar formúgur þessa dagana eins og annað eldsneyti.

Hin rökin eru þau að fyrir kemur að feitlagnir farþegar passa í raun ekki í eitt almennt flugvélasæti og það er lítt skemmtilegt fyrir manneskjuna í næsta sæti við. Breidd á almennu flugvélasæti hefur í raun ekkert breyst í 40 ár þó löngu sé staðfest að meðalmaðurinn í vestrænu samfélagi í dag sé mun meiri um sig en þá. Lausnin felst eðlilega í breiðari sætum en breiðari sæti þýða minna pláss um borð og minna pláss um borð þýðir hærri flugfargjöld.

Yfir stendur vefkönnun á vef Fararheill.is þar sem fólk er spurt álits á þessu. Það sem af er telur meirihluti eðlilegt að feitlagnir greiði hærra gjald en aðrir. Taktu þátt og segðu þína skoðun.