Það hefur stefnt í óefni hjá Tælendingum um 20 ára skeið en þeir ekki lyft litla fingri hingað til. Afleiðingin sú að í fyrsta skipti verður einhverjum allra þekktasta og vinsælasta strandstað landsins lokað tímabundið.

Frægasta strönd Tælands lokað tímabundið. Mynd Tadeezian

Óvíst hvort einhverjir nema alhörðustu Tælandsfarar þekki nafnið Maya Bay. En málið skýrist kannski þegar talað er um Maya Bay á Ko Phi Phi Le sem aftur er hluti af hinum heimsfrægu Phi Phi eyjum Tælands.

Sé fólk enn engu nær hjálpar ábyggilega að kíkja á neðangreint sýnishorn úr kvikmyndinni The Beach.

Maya Bay er með öðrum orðum frægasta strönd Tælands og ein frægasta strönd heims sökum guðdómlegrar fegurðar flóans en ekki síður vegna kvikmyndarinnar sem var meðal þeirra allra vinsælustu á sínum tíma og hefur drjúgan költ-status enn þann dag í dag.

Maya Bay verður lokað fyrir ferðafólki um tveggja mánaða skeið í haust og er það í fyrsta skipti sem yfirvöld loka einhverjum stöðum á þessum geysivinsælu eyjum.  Ástæðan að kóralrif á þessum slóðum eru á síðustu metrunum en samkvæmt rannsóknum háskólans í Bangkok eru 77 prósent allra kóralla við strendur Tælands dauðir. Dánarorsökin mengun frá bátum en mest þó vegna mengunar af túrisma.

Tveggja mánaða lokun mun auðvitað ekki hafa nein áhrif til batnaðar en meðan flestir af ríkustu þegnum landsins hafa komist í álnir gegnum ferðamennsku og eiga inni feita greiða hjá stjórnvöldum mun ekkert gerast í Tælandi fyrr en allir kórallar landsins deyja drottni sínum. Það aftur þýðir að allur fiskur hverfur annað og sömuleiðis þeir tæplega milljón ferðamenn sem koma hingað sérstaklega til köfunar. Skömmu síðar dettur botninn úr fiskveiðum landsmanna með tilheyrandi neyð enda er sælgæti úr sjó helsta góðgæti íbúa landsins. Og svo framvegis og svo framvegis.

Alveg kristaltært að framtíð Tælands sem vinsæls ferðamannalands 20 til 30 ár fram í tímann er lítil sem engin. En þeir geta sjálfum sér um kennt.