Sá sem tæki saman kvartanir þeirra sem eru á heimleið frá sólarstöðum á Kanaríeyjum eftir viku eða tveggja vikna vetrartúr og eru súrir að vera á heimleið væri sennilega ríkur maður fengi hann krónu fyrir í hvert sinn.

Langtímadvöl á Kanaríeyjum heillar sennilega alla. Mynd Travelbird
Langtímadvöl á Kanaríeyjum heillar sennilega alla. Mynd Travelbird

Það getur vissulega verið súrt að fljúga heim úr þægilegum vetrarhitanum beint í hríðarbyl og ófærð heimavið og engu skiptir hversu oft fólk fer þessa leið, alltaf kemur kuldinn heima jafn mikið á óvart.

Auðvitað geta ekki allir eytt meira en sjö til fjórtán dögum á Kanaríeyjum eða sambærilegum slóðum. Helst er það fólk sem komið er á aldur og eða fólk með peninga milli handa sem ekki þarf að vinna lengur. En jafnvel þeir sem það geta og vilja gætu átt í erfiðleikum. Kostnaðurinn við lengri dvöl er fljótur upp á við og sérstaklega á Kanaríeyjum því það eru fjarri því aðeins Íslendingar sem kjósa að eyða tíma þar yfir háveturinn. Hingað sækja Svíar og Norðmenn í miklum mæli og enginn skortur er á Þjóðverjum eða Bretum heldur.

Jafnvel þó kostnaðurinn sé ekki vandamál eru ekki allar ferðaskrifstofur að bjóða lengri dvöl en þrjár til fjórar vikur og mörg betri hótel bjóða einfaldlega ekki upp á langtímagistingu heldur. Á þessu eru undantekningar sem betur fer. Veturinn 2015/2016 bauð Úrval Útsýn, fyrsta sinni okkur vitandi, upp á lengri dvöl á Tenerife. Tveir mánuðir þar, flug plús gisting, kostaði frá 530 þúsund krónum á mann og vel uppfyrir eina milljón á haus miðað við tvo saman.

Til eftirbreytni að bjóða slíkt en gallinn sá að það er ekkert sértilboð. Væri allt eðlilegt ætti fólk að fá meiri og meiri afslátt því meira sem keypt er af vöru eða þjónustu. Svo var ekki hjá Úrval Útsýn samkvæmt okkar útreikningum. Það er svipað verð per dag per haus fyrir tveggja mánaða pakkann og vikupakkann. Sem sagt enginn afsláttur eða afar lítill.

Íbúðaleiga eða langtímahótel

Fyrir alla þá sem hafa úr takmörkuðum fjármunum að spila en dreymir um langtímadvöl, einn til þrjá mánuði, í vetrarsólinni er hagkvæmasta leiðin að fara á eigin vegum. Kaupa flug með góðum fyrirvara, og hægt hefur verið að komast til Tenerife og Kanarí með góðum fyrirvara yfir vetrartímann niður í þetta 40 til 50 þúsund á mann báðar leiðir. Segjum eitt hundrað þúsund samtals fyrir flugið fyrir hjónakorn.

Margar flottar villur á Tenerife en þær kosta sitt.
Margar flottar villur á Tenerife en þær kosta sitt.

Á báðum eyjum er að finna ágæt hótel sem bjóða sérstaklega langtímadvöl. Flest bjóða þau tilboð eins og þetta hótel hér á Maspalomas á Kanarí þar sem ákveðinn fjöldi daga er frír. Fjórir fríir dagar gegn mánaðardvöl og allt upp í sex daga fría ef dvalið er allt að tveimur mánuðum. Það gerir sirka 235 þúsund krónur fyrir 42 daga dvöl í tveggja manna herbergi. Sem er æði vel sloppið fyrir ágætt þriggja stjörnu hótel en enginn matur er innifalinn í verðinu.

Með þessum hætti er sex vikna dvöl þín undir 350 þúsund krónum á parið plús þá allur matur.

Hin leiðin er að leigja íbúð eða villu og séu fleiri en tveir um hituna má eiginlega fastsetja að það er vænni kostur fjárhagslega. Slíkt veltur þó auðvitað á íburði og staðsetningu eins og alltaf. En þægindin eru óumdeild, að geta verið út af fyrir sig og sennilega ódýrara líka því hægt er að elda heimavið og slaka í stað þess að kaupa allan mat á hótelverði eða á veitingastöðum.

Hér er sama uppi á teningnum og með hótelin. Svo lengi sem bókað er með góðum fyrirvara fæst oft afsláttur ef dvalið er lengi í einu. Afar gróflega má segja að gisting í sæmilegu þriggja herbergja einbýlishúsi kosti að lágmarki tólf til sextán þúsund krónur per nótt og því hægt að margfalda með dögum og deila í með fjölda gesta. Sex vikur gætu því kostað kringum 630 þúsund krónur en ef tvenn hjón deila því er verðið 315 þúsund á hjón. Það setur engan á hausinn heldur og inn í þetta vantar hugsanlegan afslátt vegna langrar dvalar. Um slíkt yrði að semja í hverju tilviki fyrir sig.

Að síðustu er hægt að leigja litla íbúð gegnum íbúðaleigur eins og Airbnb. Það yrði þó aldrei ódýrara en sumarhúsið. Sæmileg íbúð á þokkalegum stað fæst vart undir sex til tíu þúsund per dag og ekki pláss nema fyrir eina fjölskyldu í besta falli. Það yrði kostnaður langleiðina upp í 400 þúsund eða svo.

En lesendur hafa væntanlega tekið eftir að allar ofangreindar leiðir kosta ekki svo frámunalega mikið þegar haft er í huga að hefðbundin tveggja vikna dvöl með ferðaskrifstofu kostar yfirleitt ekki undir 400 þúsund krónum og oftast mun meira en það.

Það er því óumdeildur sparnaður kjósi fólk að gera þetta sjálft en mínusinn auðvitað sá að fólk er að taka smá áhættu og enginn er fararstjórinn til að halla sér að ef eitthvað bjátar á. Fólk sem fer eigin leiðir verður að bjarga sér sjálft.