Þó deila megi lengi um hvar og hvenær smáréttir þeir sem nú ganga undir nafninu tapas hafi fyrst komið fram á sjónarsviðið er það samdóma álit fræðinga á Spáni að elsti barinn þar í landi sem geti kallast elsti tapasbarinn sé El Rinconcillo í Sevilla.

Casa fundada en 1670 á skiltinu fyrir utan segir allt sem segja þarf. Mynd eBatty
Casa fundada en 1670 á skiltinu fyrir utan segir allt sem segja þarf. Mynd eBatty

Eins og flestir aðrir bestu tapasbarir á Spáni lætur þessi ekki ýkja mikið yfir sér. Ef frá er talið ártalið þegar þessi staður opnaði fyrst sem fram kemur á skilti fyrir utan sjást þess hvergi merki að þessi bar sé eitthvað merkilegri en sá næsti.

Hins vegar ætti ártalið að segja hugsandi fólki allt sem segja þarf. Staðurinn opnaði nefninlega árið 1670. Eins og það eitt og sér sé ekki merkilegt þá er staðurinn enn í eigu afkomenda sömu fjölskyldu og hér opnaði dyrnar fyrst fyrir tæplega 350  árum síðan. Við Íslendingar vorum enn í torfkofum og hellum þegar hér voru seldir tapasréttir til að kyngja niður með víninu.

Ritstjórn hefur komið hér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og El Rinconcillo er án alls efa ennþá meðal bestu tapasbara í Sevilla og þar er enginn skortur á samkeppnisaðilum. Hér er heldur ekkert snobb og snúðugheit eins og stundum vill verða á „betri“ tapasbörum í Madrid eða Barcelona. Allir koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og hér gott að drepa tímann stundarkorn.

El Rinconcillo finnur þú í Calle Gerona 40. Hann er nokkuð auðfundinn líka ef fólk leitar að tapasbar þar sem heimamenn eru fjölmennari en útlendingar.

PS: Ef þú kíkir hér inn taktu eftir hvernig þjónarnir fara að því að fylgjast nákvæmlega með hver skuldar hvað. Aldagömul aðferð.


Leave a Reply