Íslendingar og ferðamenn hérlendis eru góðu vanir. Bjáti eitthvað á í ferðalaginu er stór og öflug sveit manna um allt land reiðubúin að koma til bjargar og sú þjónusta ókeypis. En þannig er það ekki alls staðar.

Víða er ekki ókeypis að kalla til björgunarsveitir. Mynd Defence Images
Víða er ekki ókeypis að kalla til björgunarsveitir. Ágætt að vita séu göngur fyrir dyrum.  Mynd Defence Images

Það er til dæmis vissara að vera vel og tryggilega tryggður sé ævintýramennska í blóðinu og ferðinni heitið til landa á borð við Tékkland, Austurríki, Þýskaland, Slóvakíu eða Spánar.

Í öllum þessum löndum þarf nefninlega viðkomandi að greiða sjálfur hluta eða allan kostnað sem af hlýst ef senda þarf björgunar- eða leitarflokka af stað eftir ferðamönnum. Sá kostnaður getur numið milljónum króna ef leitin tekur tíma og jafnvel tugmilljónum ef notaðar eru þyrlur eða flugvélar við leitina.

Í Austurríki þar sem áhættufíklar fara oft á tíðum óhefðbundnar leiðir í fjallgöngum, á skíðum eða í gönguferðum kostar það eitt að senda leitarþyrlu af stað eitt einasta skipti 1,5 milljón króna samkvæmt gengi dagsins. Sá reikningur lendir þráðbeint á þeim sem óskar björgunar.

Annars staðar eru engar sérstakar björgunsveitir per se heldur hermenn sendir af stað til björgunar og leitar. Það á til dæmis við í Brasilíu og skal engum detta í hug að það sé ókeypis.

Afar mismunandi er hvaða reglur gilda í löndum heimsins og jafnvel innan sama landsins. Þannig þarf einstaklingur sem gera þarf leit að í Katalóníuhéraði á Spáni að greiða alfarið fyrir það en týnist einhver í Kastilíuhéraði er leit og björgun í sjálfboðavinnu.