„Finnst þið þurfa að vara fólk við að láta kortatryggingar duga þegar ferðast er erlendis. Við komumst of seint að því að kortatryggingar dekka almennt engin tjón á bílaleigubílum nema fólk sé með súpergull eða platínukort hjá bönkunum.”

Margir láta ferðatryggingar kortafyrirtækja duga þegar halda skal út fyrir landsteina. Þær dekka þó ósköp lítið nema þú sért með allra dýrustu kortin.

Þeir eru líkast til margir þarna úti eins og Hafsteinn Guðmundsson en hann gekk út frá því sem vísu þegar hann og kvinna hans leigðu sér bíl á Costa del Sol fyrr í vetur, að kortatryggingar dekkuðu líka hugsanleg smærri tjón á bílaleigubíl. Þess vegna hafnaði hann öllum viðbótartryggingum sem bílaleigan vildi selja honum og hélt sína leið sæll og sáttur.

Þangað til hann lenti í tjóni. Hann kom að bíl sínum illa rispuðum á bretti á bílastæði við hótel eitt á Costa del Sol.

Hann taldi víst að ferðatryggingar hans gegnum gullkort Landsbankann dekkuðu smátjón sem þetta og hafði því litlar áhyggjur. En við skil á bílnum fór bílaleigan fram á 120 þúsund króna aukagjald vegna tjónsins.

Hafsteinn greiddi tjónið möglunarlaust og átti von á því að fá endurgreitt frá tryggingunum síðar meir. En aðeins eftir að heim var komið komst hann að því að jafnvel venjulegt gullkort dekkar engin tjón á bílaleigubílum. Til þess þarf að kaupa sérstaka gullkortaferðatryggingu eða vera með súpergullkort eða platínukort.

Hann sat uppi með tjónið.

„Fúlast var kannski að hafa hafnað kaskótryggingunni sem bílaleigan sjálf bauð upp á þegar við leigðum bílinn. Slík trygging sem dekkaði allt tjón á bílnum kostaði tæpar 60 þúsund krónur og við vorum með bílinn í rúmar þrjár vikur. Vissulega ekki gefið en eftirá að hyggja þarf ekki mikið tjón á bíl til að ná þeirri upphæð og gott betur. Ég reynslunni ríkari og hvet alla sem ekki eiga súpergullkort eða slíkt að taka aukatryggingar erlendis. Mitt tjón var tiltölulega lítið en ekki þarf meira en einn árekstur eða svo til að kostnaður geti hlaupið í hundruð þúsunda króna og jafnvel meira.”

Sem dæmi um hvað Hafsteinn á við ætti að nægja að glugga í ferðatryggingar korthafa Landsbanka Íslands hér að neðan:

Glögglega má sjá að það eru aðeins tryggingar allra dýrustu kreditkortanna sem dekka að einhverju marki tjón á bílaleigubílum. Það ekki einu sinni í boði hjá láglaunaplebbum að kaupa bílaleigutryggingu gegnum kort bankanna. Það er bara fyrir pabba Bjarna Ben og aðra skattsvindlara. Og auðvitað er lágmarks sjálfskuldarábyrgð á öllu klabbinu í ofanálag. Kortatryggingar annarra íslenskra banka með svipuðu sniði.

Vonandi lendir enginn í óhappi eða slysi á erlendri grundu en varinn er góður og það jafnvel þó punga þurfi út tugum þúsunda í ofanálag við sjálfa bílaleiguna. Meira að segja hjá þeim bílaleigum sem eru sanngjarnar og heiðarlegar er dýrt að gera við nýlegar bifreiðar og nóg er af bílaleigunum alls staðar sem nota hvert tækifæri til að kreista feitari seðil úr veskjum viðskiptavina með svindli og fifferíi.