Góðu heilli er skítablesinn Andri Már Ingólfsson ekki lengur við stjórnvölinn hjá ferðaskrifstofunni Heimsferðum. En þar með er ekki sagt að skárri aðili hafi tekið við.

Önnur af tveimur auglýsingum Heimsferða í Fréttablaði dagsins. Tilboðin þar fjarri því merkileg. Skjáskot

Ferðaskrifstofan Heimsferðir hafa verið í eigu Arionbanka síðan fyrirtæki hins skattaskjólselskandi Andra Más féllu fram af björgum fjárhagslega haustið 2018.

Sá banki þjösnast á landanum um ár og raðir með almenna bankaþjónustu og sér nú leik á borði að þjösnast líka á landanum gegnum fyrirtæki sem bankinn hefur tekið yfir. Eða hvernig annars er hægt að útskýra að flugferðir fram og aftur til Kanaríeyja um næstu páska kosti manninn allt upp í 130 þúsund krónur!!!

Vitiborið ferðafólk veit sem er að skottúr til Kanaríeyja og sömu leið til baka kostar sjaldan meira en þetta 70-80 þúsund krónur topps. Meðan Wow Air var og hét þóttu 40 þúsund krónur algjört okur fyrir þann pakkann og oft í boði að komast með handfarangur báðar leiðir fyrir 25 þúsund kallinn á kjaft. Þegar þetta er skrifað er komist þessa leiðina og heim aftur með Norwegian fram í apríl niður í 50 þúsund per haus.

Alles gott og blessað só far.

En það er dæmigert fyrir banka sem endurreistur var fyrir milljarða króna af skattfé almennings að nota tækifærið og níðast á sömu skattgreiðendum út í hið óendanlega. Eða hvað annað á að lesa út úr því að bankafyrirtækið Heimsferðir heimtar allt að 130 ÞÚSUND KRÓNUR fyrir skitið flug fram og aftur fyrir einstakling til Tenerife samkvæmt auglýsingum fyrirtækisins???

Við gætum nefnt nokkur dæmi en látum eitt nægja og bendum fólki endilega á að gera sams konar verðsamanburð. Skoðum þessa tilteknu auglýsingu hér fyrir ofan:

Tólf nátta túr til krummaskuðs á Tenerife (bær sem er 40 mínútna keyrslu frá Costa Adeje) kostar samkvæmt sértilboði Heimsferða 180.870 þúsund á mann miðað við tvo saman. Samtals því 361.740 krónur á parið. Gist á hótelinu Globales Tamaimo Tropical og ekkert innifalið.

Hmmm.

Fyrir utan að vera víðsfjarri glensi og gamni er Globales Tramaimo Tropical hótelið aðeins þriggja stjörnu. Þess vegna finnst gisting þessar tólf umræddu nætur (2.apríl-14.apríl 2020) á hótelvef Fararheill niður í 114. 911 krónur og það meira að segja með morgunverði sem ekki er innifalinn í túr Heimsferða.

Vissulega fá ferðaskrifstofur feita afslætti á gistingu og því er verð á vef okkar líklega í dýrari kantinum. Það breytir ekki því að ef við drögum 115 þúsund frá heildarkostnaði Heimsferða fyrir tvo saman (361.740 krónur) þá standa eftir rétt tæpar 247 þúsund krónur.

Sem aftur merkir að Arionbanki/Heimsferðir eru að heimta rúmlega 123 þúsund krónur fyrir flug fram og aftur til Tenerife um páskana per einstakling. Hvor flugleið um sig kostar því rúmar 60 þúsund krónur!!!

Það, gott fólk, er okur á okur ofan og full ástæða til að snúa viðskiptum eitthvað allt annað…