Okkur vitandi eru lögfræðingar íslenskir flestir að gera ágætt mót og þá ekki síst Ómar R. Valdimarsson sem er svo auðugur að hann skreytir allan garðinn sinn jólaljósum strax í ágústmánuði og glottir að rafmagnsreikningnum. Sami Ómar vill að þú njótir hans aðstoðar þegar eitthvað bjátar á í flugi.

Sex hundruð evrur er hæsta upphæð sem þú getur fengið ef þú lendir í leiðindum á flugi. En þá á Ómar R. Valdimarsson eftir að taka feita þóknun svo þú sérð aldrei nokkurn tíma 600 evrur í bætur. Skjáskot

Flugbætur kallast vefur sem Ómar þessi heldur úti fyrir hönd lögfræðifyrirtækisins Esja Legal. Þar gefst fólki kostur á aðstoð til að sækja bætur til flugfélaga ef eitthvað fer úrskeiðis sem gæti fallið undir ábyrgð flugfélaga.

Gott og blessað með það. Við hér hjá Fararheill lofað slíkar þjónustur gegnum tíðina. Það eru mörg flugfélög þarna úti sem beita öllum trixunum í bókinni til að koma í veg fyrir að þurfa að greiða bætur vegna eins né neins og þarf ekki að leita lengra en til flugferða Wizz Air frá Póllandi til Íslands til að finna dæmi um þann viðbjóð.

En í þau skipti erum við að tala um þegar fólk lendir í vandræðum með flugferðir sem ekki eiga sér stað frá Íslandinu eða lenda á Íslandi. Þá getur verið í fá hús að venda.

Öðru máli gegnir um flugferðir til og frá Íslandi svo ekkert sé minnst á flugferðir innan Íslands. Þá er nefninlega heil ríkisstofnun að gæta þinna hagsmuna. Samgöngustofa tekur við öllum kvörtunum farþega til og frá Íslandi og ákvarðar um bætur í hverju máli fyrir sig. Ekkert flugfélag sem notast við Ísland sem áfangastað sleppur undan því að greiða bætur ef Samgöngustofa ákvarðar svo.

Þjónusta Samgöngustofu kostar ekki krónu ef frá eru taldir almennir skattar og stofnunin tekur enga þóknun af hugsanlegum bótum sem hún ákvarðar fyrir þína hönd. Það gerir hins vegar Ómar R. Valdimarsson og þess lags kónar. Lögfræðingar taka þetta 10-25 prósent af öllum heimtum vegna seinkana, tafa, yfirbókana og annars vesens í flugi.

Sem merkir að yfirlýsing Flugbóta hér að ofan þess efnis að þú getir fengið allt að 600 evrur ef flugi seinkar fram úr hófi er innantómt blaður. Það er hæsta upphæð sem þú getur fengið gegnum Samgöngustofu. En 600 evrur mínus 15 prósenta þóknun er ekki 600 evrur.

Notaðu lögfræðinga ef þú lendir í kúk og kanil á flugi frá Manila til Prag eða milli Istanbúl og Höfðaborgar. En að nota lögfræðiþjónustu vegna einhvers sem gerist í flugi til og frá Íslandi er peningur út um gluggann…