Hótelbókunarvefur Booking er ekki eina fyrirtækið sem beitir þessari tækni en þeir eru þar fremstir í flokki og voru einna fyrstir með þetta trix.

Sjáið skjáskotið hér til hliðar. Þú ætlar til Barcelóna, eða annarrar borgar á næstu misserum og tékkar á vef Booking. Það fyrsta sem upp kemur, og það áður en þú færð að sjá úrval gistingar á þeim tíma, er flennistór borði þar sem þér er í reynd bent að nú þurfi að hafa hraðar hendur. Allt sé að verða uppbókað á þeim tíma sem þig langar að ferðast. Oft er mælirinn fyllri en hér sést og á vinsælum stöðum á annatíma auglýsir Booking gjarnan að allt að 70% gistirýma séu fullbókuð.

Guð minn góður!!! Aðeins örfá hótelherbergi laus þann tíma sem ég er að bjóða manninum mínum til Barcelóna….. Hjálp!

Þú hleypur til og bókar í einum grænum því ef 70% er bókað nú þegar er stór hætta á að það verði ekki eitt einasta herbergi á sæmilegu hóteli laust eftir nokkra sólarhringa. Fyrir vikið þá greiðir þú yfirleitt hærra verð fyrir gistinguna en þörf er á.

Öndum aðeins með nefinu og tökum eitt skref til baka. Skoðum augnablik hversu mörg hótel/gististaði Booking.com er að bjóða upp á í Barcelóna, svo við höldum okkur við dæmið hér að ofan. Þú sérð heildarfjölda gististaða í borginni efst til vinstri á vef Booking með mjög smáu letri. Í þessu tilfelli finnum við þetta:

Hér sjáum við að alls 2.635 gististaðir eru á skrá hjá Booking.com í Barcelóna.

Hvort sem við reiknum í huganum eða brúkum reiknivél þá er niðurstaðan sú að séu 32 prósent allra gistirýma í Barcelóna uppseld á umræddum tíma eru ennþá 1.787 hótel og gististaðir eftir með pláss fyrir ferðafólk.

Með öðrum orðum: það er kappnóg af gistingu eftir í ofangreindu tilfelli og engin einasta þörf á að negla hótel prontó.

En bíddu samt aðeins við. Þú vissir ekki fyrr en núna að Booking.com býður einna lélegasta úrval gististaða í borgum heims. Það fer nefninlega ekki alltaf saman að gera sig breiðan og vera breiður sjáðu til 🙂

Ef við skottumst augnablik yfir á hótelbókunarvél Fararheill og könnum augnablik hversu mörg hótel og eða gististaðir finnast þar í Barcelóna kemur þetta í ljós:

Hmm? Hvernig má vera að HELMINGI fleiri hótel og gististaðir finnist í Barcelóna en Booking.com vill meina?

Það er jú aðal trixið hjá Booking. Að láta þig halda að þú sért að renna út á tíma með gistingu á ferðalaginu þegar ekkert er fjær lagi. Booking.com blöffar út í eitt og er fjarri því að bjóða lægsta verð á sömu gistingu á sama hóteli öllum stundum.

Ekki láta plata þig 😉