Vart hefur farið framhjá ferðalöngum að Spánn er hægt og bítandi að verða dýrari og dýrari áfangastaður. Ekki einungis er flug og gisting að hækka árlega heldur og verðlag í landinu og þá allra mest í vinsælustu borgunum, Madríd og Barcelóna.

Er hugmyndin að kaupa eitthvað dýrt á Spáni? Fáðu þá vaskinn endurgreiddann við brottför. Mynd Tokyographer
Er hugmyndin að kaupa eitthvað dýrt á Spáni? Fáðu þá vaskinn endurgreiddann við brottför. Mynd Tokyographer

Það er því full ástæða til að gefa ekkert aukalega þegar haldið er heim á leið og ein leið til þess er að nýta sér endurgreiðslu á virðisaukaskatti við brottför. Endurgreiðsla kemur til um leið og keypt er fyrir hærri upphæð á einum og sama staðnum en 91 evru eða sem nemur um fjórtán þúsund krónum miðað við gengið.

Virðisauki á Spáni, I.V.A., er settur á velflestar vörur og þjónustu en í misháum mæli þó. Almennt eru þó vörur aðrar en matur og nauðsynjar í 21 prósenta vask-flokki.

Vissulega er þetta örlítið vesen. Biðja þarf starfsfólk í verslunum um sérstök eyðublöð til að fá skattinn endurgreiddann og fylla þau út á staðnum. Í þokkabót þá verður varan/vörurnar að vera í upprunalegum umbúðum og helst ónotaðar þegar farið er á flugvöllinn því áður en nokkuð fæst endurgreitt þarf að fá sérstakan stimpil hjá tollþjónustu Guardia Civil á flugvöllunum. Básar þeirra eru á öllum flugvöllum og opnir allan sólarhringinn. Þar þarf nefninlega að framvísa ekki aðeins vegabréfi og eyðublöðunum umræddu heldur og sýna vöruna/vörurnar sem um ræðir. Hér skal hafa í huga að í mörgum tilfellum eru básar þessir inni í flugstöðinni og því fæst ekki neitt ef varan/vörurnar hafa farið ofan í töskurnar sem tékkaðar hafa verið inn.

Að síðustu, gangi allt að óskum, er málið að fara rakleitt í næsta bankaútibú eða útibú Global Blue á vellinum og fá beinharða peninga til baka.

Allt þetta vesen er vitaskuld aðeins sniðugt ef um dýra vöru er að ræða sem einnig er auðvelt að setja í handfarangur eða bera á sér. En 100 þúsund króna Breitling karlmannsúrið fer niður í 80 þúsund krónur með slíkri endurgreiðslu og um leið undir leyfilegt hámarksvirði hluta sem koma með má heim til Íslands án þess að greiða sérstakan aukatoll.