Langflestum Íslendingum yfir fimm ára aldur þykir hefðbundin íslensk kjötsúpa lostæti mikið og fáir neita sér um ábót af slíku fæði. En hvað ef við segðum þér að í Portúgal er til nánast sami réttur og hefur verið um ár og aldir?

Cozido á diskinn minn. Nánast fiskisúpa fyrir utan soðið sem yfirleitt kemur ekki með. Afbragð samt.
Cozido á diskinn minn. Nánast kjötsúpa fyrir utan soðið sem yfirleitt kemur ekki með. Afbragð samt.

Jú, víst telja margir þjóðernisfullir Íslendingar að við höfum fundið upp hina ýmsu rétti sem hér hafa verið á borðum fólks frá landnámi. Það þarf þó ekki mörg skref á erlendri grundu til að sú mýta fljóti til helvítis.

Það heitir reyndar ekki kjötsúpa heldur kjötkássa sem Portúgalinn kokkar mikið heimavið og kallar Cozido en fyrirbærið er það sama. Mikið magn af kjöti í pott með grænmeti eins og það sé á leið úr tísku og svo sjóða allt klabbið og hræra vel með. Soðið fer þó ekki með á diskinn. Eini munurinn sá að norðarlega í landinu blandar fólk gjarnan mismunandi kjöttegundum saman en sunnar er lambakjötið helst notað og oft er baunum blandað saman við líka. Þá nota menn líka krydd ofan í allt og þá er piri-piri vinsælt sem vissulega gefur meira kikk en ella. Frábær réttur en hann finna menn ekki á fínni veitingahúsum í landinu. Til þess þarf að finna Múlakaffi þeirra Portúgala eða svona fjölskyldustaði þar sem maturinn er í fyrirrúmi en ekki húsakynnin. Slíkir staðir eru út um allt en næstum alltaf utan miðbæjarkjarnans.

Annar portúgalskur réttur sem við gefum toppeinkunn er Caldeirada. Einfaldast að kalla það fiskikássu en kássa er jú hræðilegt orð og fráhrindandi. Þetta er í raun blanda af hinum ýmsu fisktegundum sem finnast við strendur Portúgal og allt eldað með grænmeti alveg eins og kjötkássan. Hér er þó líka eldað í hvítvíni og ólífuolíu sem gefur enn ferskara bragð en annars. Hér óhætt að hafa í huga að allur fiskur á veitingastöðum hér og í verslunum er varla dagsgamall og gæti ekki verið ferskari. Hér býður enginn upp á frostþurrkaðan fisk eins og raunin er oft heima á Íslandi. Ótrúlega gott og mettandi.