Það er einfalt fólk að skrifa greinar á Fararheill.is. Svo einfalt reyndar að halda að einn allra ríkasti maður landsins hefði snefil af áhuga að koma flugfélagi sínu úr ræsinu í þjónustulegu tilliti. Ekkert bendir þó til þess.

Sumar töskur farþega Wow Air stoppa á flugvellinum sjálfum áður en þeim er komið áfram til viðskiptavina. Mynd Twitter

Hvað svo sem segja má um samfélagsmiðla þá gefa þeir fólki tækifæri á að segja skoðun sína á mönnum, málefnum og ekki síst fyrirtækjum. Og samkvæmt ÖLLUM samfélagsmiðlum er Skúli Mogensen hreint ekki að sparka í neina rassa í sínu fyrirtæki til að bæta þjónustuna. Þjónusta Wow Air versnar og versnar og versnar dag frá degi.

Þjónusta Wow Air er svo hörmuleg að Skúli lokaði á ummæli viðskiptavina sinna á fésbókinni fyrir allnokkru. Níu af hverju tíu ummælum þar voru neikvæð í garð flugfélagsins. Það stoppar fólk ekkert þó Facebook sé blokkerað, finna má dæmi um skítlega – eða alls enga – þjónustu Wow Air á öllum samfélagsmiðlum og það ítrekað.

Þar velflestir sammála um að Wow Air sé fínt til brúksins ef fólk ætlar að ferðast töskulaust milli landa en þess utan er allt í volli. Kostnaður við allt þetta aukalega svo mikill að flugfélagið hættir umsvifalaust að vera lággjaldaflugfélag ef ein skitin taska er með í för. Þá kostar flugið með Wow Air svipað og hjá hefðbundnum flugfélögum.

Verst þó þegar eitthvað bjátar á. Ef Wow Air frestar flugi, fellir niður flug eða alvarlegar tafir verða á flugi félagsins má fólk bíða í áratugi eftir aðstoð, miskabótum eða endurgreiðslu. Jafnvel bara sambandi við þjónustufulltrúa.

Það þrátt fyrir að eigandinn sjálfur hafi nú verið laus og liðugur frá rekstri flugfélagsins um nokkurra mánaða skeið. Ljóst að sæmileg þjónusta er ekki hátt á lista milljarðamæringsins Mogensen.